ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Aðalfundur 30. apríl 2016

Aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar var haldinn í Iðnó þann 30. apríl.
Hófst fundurinn samkvæmt auglýstri dagskrá kl. 11:00 og var hann nokkuð vel sóttur að þessu sinni þar sem auk stjórnarmanna voru 25 fundargestir.
Fundarstjóri var Einar Örn Thorlacius.

Sverrir Þórarinn Sverrisson, formaður Íbúasamtakanna flutti skýrslu stjórnar. Hann lagði áherslu á að stefna stjórnar hefði verið að forðast að taka afstöðu í stórum pólitískum málum eins og varðandi staðsetningu Landspítalans og Flugvallarmálið. Stjórn hefði lagt áherslu á mál sem allir stjórnarmenn gætu sameinast um að berjast fyrir.
Ræða formanns í heild sinni er hér fyrir neðan.

Reikningar félagsins voru síðan kynntir og bornir upp til samþykktar.

Næsti liður var kosning stjórnar en nokkur breyting á stjórn var fyrirsjáanleg.
Sverrir Þórarinn Sverrisson sem gegnt hefur hlutverki formanns í eitt kjörtímabil gaf ekki kost á sér og var Benóný Ægisson, sem hefur verið í stjórn félagsins um árabil kosinn í til tveggja ára. Ný stjórn er þannig skipuð: Anna G. Björnsdóttir, Einar Thorlacius, Gunnar Ólason og Hlynur Johnsen sitja áfram. Guðrún Janusdóttir og Hlín Gunnarsdóttir gáfu kost á sér til endurkjörs og halda áfram sem varamenn. Nýir fulltrúar kosnir á fundinum eru  Guðrún Erla Geirsdóttir og Ragnhildur Zoega.

Næst á dagskrá var sérlegur gestur fundarins. Ólöf Ýrr Atladóttir flutti fróðlegt og skemmtilegt erindi um áhrif ferðamanna á borgarlíf og íbúa.
Að loknu erindi Ólafar voru umræður og síðan voru almenn mál á dagskrá. Undir þeim lið tóku ýmsir fundargesta til máls.

Gestur Ólafsson arkitekt, hvatti til forgangsröðunar verkefna félagsins.
Leggur til að Víkurgarður verði settur ofarlega á forgangslista íbúasamtakanna. Benti á að staða Landsspítalans mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar á allt nærumhverfið.

Anna Atladóttir ræddi um umferð rútubíla um miðborgina. Einsdæmi að rútur sæki fólk upp að dyrun í miðborgum. Kynnisferðir með 65 pick-up staði í miðbænum.

Séra Þórir Stephenssen, fyrrverandi Dómkirkjuprestur, Friðrik Ólafsson og Þór Magnússon hafa stofnað hóp áhugafólks um verndun Víkurgarðs, elsta greftrunarstaðar þjóðarinnar. Telja það stórfelt menningarslys ef  á honum verði reist hótel, eins og til stendur. Leggja til að Íbúasamtökin komi stofnun samtakanna að eða lýsi stuðningi við málefnið.

Ása Hauksdóttir, lagði áherslu á að hlutverk íbúasamtakanna geti ekki verið að beita sér í stóru málunum en eigi frekar að leggja áherslu á nærumhverfið. Litlu málin eru stóru málin fyrir íbúa. Það sé t.d. mjög alvarlegt þega verið sé að byggja hótel í íbúahverfi, eins og við Grettisgötu.

Magnús Skúlason, fyrrverandi formaður íbúasamtakanna benti á að þétting byggðar hefði snúist upp í andhverfu sína, það væri bæði byggt upp og niður í jörðina og fylgdu þeim framkvæmdum miklar boranir í harða klöppina.

Ekki var fleira skráð af fundarritara.
Aðalfundi Íbúasamtakanna var slitið kl. 13:30

Skýrsla stjórnar

Góðir fundarmenn
Á liðnu starfsári samtakanna okkar hefur margt það sem fyrir tveimur eða þremur árum voru hugmyndir um breytta ásýnd miðborgarinnar orðið að veruleika. Annað mun líta dagsins ljós á næstunni.Íbúasamtökin hafa í mörgum tilvikum látið uppi afstöðu sína gagnvart fyrirhuguðum framkvæmdum.
Segja má að nærumhverfi okkar sem búum í miðborginni hafi tekið stakkaskiptum á skömmum tíma. Margt af því sem gert hefur verið hefur verið bæði til bóta og prýði. Það má kannski segja að það sem einkennir slíkar framkvæmdir er að gætt hefur verið að samræmi nýrra bygginga við eldri byggð og byggðamynstur svæðisins.

Við erum þessa dagana að sjá dæmi um ánægjulega breytingu sem er að verða á Hverfisgötunni og er gatan nú að breytast í eina af fallegri götum borgarinnar. Eftirtektarvert er að sjá að haldið er í heiðri samspili nýrra bygginga við eldri byggð. Sama má segja um nokkrar nýjar byggingar við Laugaveginn sem nú eru að líta dagsins ljós.

En því miður finnast dæmi um að illa hefur verið staðið að verki við byggingar þegar þétta á byggð. Íbúar nánast ofurliði bornir þegar ósvífnir byggingaverktakar hunsa algjörlega eðlilegar umgengnis- og framkvæmdareglur og öll samskipti við nágranna á viðkomandi stað eru í skötulíki svo ekki sé dýpra í árina tekið. Eins gerðist það nýverið að verktaki kaus að fara með kúluna á friðað hús. Slíka háttsemi er nokkuð sem erfitt er að skilja en ljóst er að á slíkum fruntaskap í samskiptum við íbúa og skemmdarverkum á húsum í miðborginni verða borgaryfirvöld að taka hart á.

Yfirbragð og ásýnd hverfa og svæða er ekki bara hús og garðar. Umhverfið mótast líka af götum og gangstígum sem húsin okkar standa við. Þeim þarf að halda við og sinna. En nú er svo komið að brýnna og skjótra úrbóta er þörf á götum borgarinnar miðborgin er þar engin undantekning. Aukin umferð samfara samdrætti í viðhaldi gatna hefur leikið göturnar grátt. Svo grátt að ekki verður lengur við unað. Strax verður að ráðast í viðhald og endurnýjun. Allt þetta er verkefni sveitarfélagsins okkar og við gerum kröfu til þess að farið verði í nauðsynlegt viðhald og endurnýjun.


Ekki fer fram hjá nokkrum manni að yfirbragð og mannlíf í miðborgarinni er allt annað en það var til dæmis árið 2000 svo ekki sé farið lengra aftur í tímann. Drifkraftur breytinganna er að stærstum hluta mikil aðsókn ferðamanna og áhrif stóraukinna umsvifa vegna þjónustu við ferðafólk sem hingað kemur. Áhrifin birtast meðal annars í gríðarlegri uppbyggingu hótel og veitingastaða hér á svæðinu okkar. Íbúasamtökin hafa á undanförnum árum lagt til við borgaryfirvöld að sett yrði fram stefna um staðsetningu hótela þannig að takmarkaður yrði fjöldi hótela á svæðinu. Að öðrum kosti yrði ruðningsáhrif hótela á íbúabyggð á litlu svæði í miðborginni ófyrirsjáanleg. Nú hafa yfirvöld sett hlutfallslegt þak á frekari hótelbyggingar í Kvosinni en þeirra sem þegar hafa hlotið samþykki. Á næstunni munum við engu að síður sjá rísa stór hótel í miðborginni sem veitt hafði verið samþykki fyrir áður en þakið var sett á frekari hótelbyggingar. Nýlegur uppgröftur beina í fógetagarðinum mun vonandi verða til þess að þeir látnu fái að liggja á sínum stað og fyrirhuguð hótelbygging á gröfunum blásins af.

Nú styttist í að við sem hér búum fáum okkar eigin útilaug en áætlanir eru um að opna útlaugina við Sundhöllina næsta vor. Ekki er nokkur vafi á að útilaugin verður fjölsóttur staður bæði heimamanna og ferðamanna.

Íbúasamtökin áttu þess kost að sitja í nefnd á vegum innanríkisráðuneytisins um framtíðarnotkun hegningarhússins við Skólavörðustíg. Ytra byrði hússins er friðað og sama á við um dómssalinn sem er á annari hæð hússins. Nefndin skilaði tillögum sínum til ráðuneytisins fyrir all nokkru og var þar lagt til að húsið yrði áfram í eigu opinberra aðila en brýnt væri að ráðast strax í fyrstu aðgerðir til varðveislu hússins sem er í afar döpru ásigkomulagi. Meðal tillagna nefndarinnar var að garðurinn við húsið yrði opnaðurog seinni tíma upphækkun á veggjum umhverfis húsið fjarlægðir.Eins var lögð fram sú hugmynd að húsið fengi að vera menningarhús tónlistarinnar og það og garðurinn haft opið almenningi með einhverri veitingaaðstöðu fyrir gesti. Á þessari stundu er ekki vitað um áform eiganda hússins um notkun eða afdrif þess. Verði af slíku má búast við að húsið verði einn að fjölsóttari ferðamannastöðum borgarinnar.

Aukinni ferðamennsku fylgir auðvitað þörf fyrir fleiri veitingastaði og er ekkert óeðlilegt að veitingahúsum í miðborginni fjölgi en hér þarf þó að huga vel að því að heimildir til rekstur veitingahúsa og opnunartími þeirra gangi ekki á lífsgæði íbúa. Við viljum ekki horfa uppá að eins fari fyrir Þingholtunum , Skólavörðuholtinu eða Skuggahverfinu og Kvosinn þar sem flestir íbúar eru nú farnir á brott en eftir standa veitingastaðir opnir langt fram á nótt.

Eðlilegt er að spyrja hver eru eða geta verið áhrif samtaka á borð við samtökin okkar . Við þeim spurningum eru ekki til nein einhlýt svör en þó er á stundum hlustað eftir röddum íbúa kannski frekar af skyldurækni en raunverulegum áhuga sérstaklega þegar um skipulagsmál er að ræða. En til að mannlífið í borginni verði gott þarf samtal borgaryfirvalda við íbúa alltaf að fara fram og í því samhengi skulum við muna að þeir sem stýra borginni hverju sinni gera það í okkar umboði.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is