ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Aðalfundur 16.nóvember 2010

Aðalfundur Íbúasamtaka miðborgar haldinn í Iðnó 16.nóvember 2010. Fundarstjóri er Sigurmar K. Albertsson hrl. og ritari Íbúasamtakanna ritar fundargerð.

Fundarstjóri kynnti dagskrá fundarins, en hún er bundin í lögum félagsins.

1. Skýrsla stjórnar. Magnús Skúlason kynnti helstu viðfangsefni stjórnar á liðnu ári. Fer skýrslan hér á eftir.

Síðasti aðalfundur samtakanna var haldinn 25. nóvember 2009 og var þá kosin ný stjórn eins og lög gera ráð fyrir. Fundarstjóri var sem áður Sigurmar K. Albertsson hrl. Þau sem kosin höfðu verið á aðlfundi 2008 til tveggja ára voru þau Magnús Skúlason formaður Benóný Ægisson, Kári Halldór Þórsson og Hlín Gunnarsdóttir. Í stað þeirra þriggja sem gengu úr stjórn voru kosin þau Arnar Helgi Kristjánsson, Bryndís Jónsdóttir og Guðrún Janusdóttir. Varamenn sem höfðu verið kosin til tveggja ára voru þau Halla Bergþóra Pálmadóttir og Gylfi Kristinsson . Í stað þeirra tveggja sem gengu úr varastjórn voru kosin þau Sigríður Gunnarsdóttir og Sigurður Sigurðsson.

Stjórnarfundir hafa að jafnaði verið haldnir tvisvar í mánuði. Þar utan hefur formaður setið flesta fundi Hverfisráðs miðborgar en þeir eru haldnir mánaðarlega. Íbúasamtökin hafa þar seturétt með málfrelsi og tillögurétti sem hefur verið notað óspart. Á dagskrá ráðsins er ætíð gert ráð einum lið sem eru málefni Íbúasamtakanna.

Hefur ráðið oftlega tekið undir stjórnarsamþykktir Íbúasamtakanna eða tillögur. Sá er hins vegar galli á gjöf Njarðar að ráðið er einungis rágefandi fyrir borgarstjórn

Verða nú rakin helstu mál sem fjallað hefur verið um á vegum Íbúasamtakanna:

Mál sem ber hæst er barátta fyrir breytingum á opnunartíma veitingahús á svæðinu og minnkun á hávaða frá þeim. Eins og kunnugt er hefur samþjöppun og fjölgun veitingahúsa haft í för með sér aukið ónæði og meiri ofbeldisglæpi en áður hafa þekkst í miðborg Reykjavíkur. Allt þetta má lesa í skýrslum lögreglu ekki síst í bréfi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins til borgarstjóra frá desember 2008. Við höfum átt fundi með lögreglu, heilbrigðiseftirliti og borgaryfirvöldum ásamt bréfaskriftum síðasta árið. Þá er rétt að minna á samþykkt síðasta aðalfundar okkar þar sem eftirfarandi samþykkt var gerð:

Lokunartími allra veitingastaða í miðborginn verði eigi síðar kl. 3.00 aðfaranótt laugardaga og sunnudaga.
Hálftíma taki að koma fólki út.
Skilgreint verði síðan hvaða staðir séu næturklúbbar og þeim fundnir viðeigandi staðir fjarri íbúabyggð enda geti þeir verið opnir lengur.
Tryggt sé að hávaði frá veitingastöðum í miðborginni sé í lágmarki þannig að íbúar hafi svefnfrið t.d. skv. 4. gr. lögreglusamþykktar.
Við endurskoðun aðalskipulags sem nú stendur og þar með endurskoðun á Þróunaráætlun miðborgar frá árinu 2000 verði endurskoðaðar allar reglur um veitingastaði þannig að íbúabyggð og veitingahús geti farið saman án þess að gengið sé freklega á rétt íbúa eins og nú er.

Fyrir okkar tilstilli hafði verið skipaður Stýrihópi um endurskoðun staðsetningar og afgreiðslutíma áfengisveitingastaða s.l. haust. Hópurinn skilaði áliti rétt fyrir kosningar í vor að undangengum fundi í ráðhúsinu þar sem einkum kráareigendur fjölmenntu. Tillögur hópsins voru ekki okkur að skapi en þær gengu út á að stytta opnunartíma veitingahúsanna um klukkustund á einu ári í tveim áföngum. Að vísu voru þar tillögur um að auka fjárveitingar til að heilbrigðiseftirlit megi stunda hávaðamælingar að nóttu til, en það hefur verið erfitt undanfarið vegna fjárskorts og yfirvinnubanns. Þess ber að geta að fulltrúi vinstri grænna tók undir tillögur okkar varðandi opnunatíma. Það sorglega er hins vegar að að hverfisráð tók undir tillögur stýrihópsins en ekki okkar. Að lokum samþykkti svo borgarráð tillögur stýrihópsins þann 13. október sl. án þess að geta einu orði um nauðsyn þess að stemma stigu við hávaða. Af því tilefni var eftirfarandi fært til bókar á fundi Hverfisráðs þann 28. október:

Stjórn íbúasamtakanna lýsa yfir megnri óánægju með ofangreinda samþykkt sem felur í sér klukkustundarstyttingu í tveim áföngum á einu ári. Í samþykktinni kemur ekkert fram um varnir gegn hávaða eða vörnum gegn ofbeldismönnum sem ganga lausir og eru aðallega á ferðinni eftir kl. 3.00. Röksemdafærslu Íbúasamtakanna og lögreglu er að finna í álitum, samþykktum og bréfum sem ekki verða endurtekin hér.

Þá lýsir stjórn Íbúasamtaka yfir ennþá meiri óánægju yfir afstöðu Hverfisráðs sem hefur tekið undir ofangreindar tillögur sem nú hafa verið samþykktar í Borgarráði. Íbúasamtökin höfðu vænst þess að Hverfisráðis myndi að einhverju leyti hlusta á raddir íbúa. Það má fullyrða að hvergi á byggðu bóli megi finna það skrílsástand sem tíðkast í Reykjavík um hverja helgi og stafar ekki síst af of löngum opnunartíma áfengisveitingahúsa. F.h. stjórnar Íbúasamtaka miðborgar Magnús Skúlason

Síðan gerðist það þann 10. nóvember sl. að við fengum viðtal við borgarstjóra þar sem þetta mál var rætt ásamt öðrum baráttumálum okka ein og hverfisvernd, auð og yfirgefin hús í óreiðu og beitingu dagsekta vegna þeirra, aukið samráð við íbúa vegna skipulagsákvarðana og síðast en ekki síst hugmyndir um að fá fyrrverandi spennistöð OR á lóð Austurbæjarskóla undir félagsaðstöðu skólans og hverfisins. En sú hugmynd er unnin í samvinnu við foreldrafélag skólans. Þess má geta að núverandi borgarstjóri hafði ekki heyrt um þá tillögu.

En hverfisverndin hefur okkur verið hugleikin, einkum vegna þess hvernig miðborgin er útleikinn eftir endurtekin skipulagsmistök undanfarinna ára.

Árið 1996 var lokið vinnu við húsvernd á mörgum svæðum innan Hringbrautar/Snorrabrautar, en tveir gallar voru þar á. Annars vegar að þar var ekki tekið nægilega á varðveislu húsa í miðborginni og hins vegar öðlaðist sú vinna ekki stöðu sem hluti aðalskipulags sem er bránauðsynlegt. Sannleikurinn er sá að stjórnmálamenn allflestir hafa aldrei haft kjark í sér til að standa í lappirnar þegar kemur að varðveislu byggingararfsins. Kannski er það vegna þess að þeir hafa þurft að hygla einhverjum af einhverjum óþekktum ástæðum.

Árið 2008 skilaði vinnuhópur undir formennsku Hjörleifs Stefánssonar frá sér tillögum um hverfisvernd. Frábærar tillögur sem dregist hefur að taka afstöðu til en á það höfum við lagt áhersu á við skipulagsyfirvöld. Það var því ekki fyrr en á síðasta fundi fyrrverandi skipulagsráðs þann 19.maí sl. að eftirfarandi gerðist:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði fram eftirfarandi tillögu:

"Skipulagsráð Reykjavíkur samþykkir að miðborg Reykjavíkur, innan Hringbrautar, skuli skilgreind sem sérstakt verndarsvæði til samræmis við það sem tíðkast í sögulegum miðbæjum víða í Evrópu og Norður Ameríku. Átt er við það sem í Bretlandi kallast conservation area og historic district í Bandaríkjunum.

Markmiðið er að vernda sögulega byggð á svæðinu og stuðla að því að þegar framkvæmdir fara fram innan svæðisins verði þær til þess fallnar að styrkja heildarmynd þess til samræmis við það sem var þegar svæðið byggðist.
Slík skilgreining skal verða hluti af staðfestu aðalskipulagi og taka gildi ekki síðar en á afmæli Reykjavíkurborgar 18. ágúst 2010."
Samþykkt.
Vísað til meðferðar hjá embætti skipulagsstjóra.

Nú er að vísu komið nýtt skipulagsráð og líka ný skipulagslög. Í nýju lögunum er gert ráð fyrir nýjum aðferðum innan deiliskipulagsvinnunar en það er hverfisskipulag og innan þess er gert ráð fyrir hverfisvernd:

“Þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skal lagt mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru, með gerð húsakönnunar. Þegar unnið er að slíku hverfisskipulagi er heimilt að víkja frá kröfum um framsetningu sem gerðar eru til deiliskipulagsáætlana í nýrri byggð og leggja frekar áherslu á almennar reglur um yfirbragð og varðveislugildi byggðarinnar auk almennra rammaskilmála.” Úr skipulagslögum 2010 Þá verður gildistími skipulagsáætlana styttur niður í 5- 15 ár en helsti vandi okkar í dag er að í gildi eru deiliskipulög sem eru algjörlega út úr kortinu en erfitt talið og kostnaðarsamt að breyta þar um vegna þess að gildistími virðist ótakmarkaður

Mér er tjáð nú af nýjum formanni skipulagsráðs, skipulagsstjóra og eftirmanni mínum hjá Húsafriðunarnefnd að sú vinnuaðferð að tengja hverfisverndina við hverfiskipulag og aðalskipulag verði nú notuð.

Það er kannske komið nóg af skipulags og húsverndarmálum hér, en þó verð ég að árétta að það hefur legið of lengi í landi að einkum lítil og jafnvel meðalstór timburhús eigi að víkja fyrir stærri steinsteypubyggingum. Þetta eru úrelt sjónarmið því það er skylda hverrar kynslóðar að gæta byggingararfsins. Það eru ekki mörg hús þessarrar tegundar eftir og nóg pláss er fyrir nýbyggingar annars staðar eða innan um ef byggt er í takt við það sem fyrir er. Þ.e. í réttum mælikvarða. Nokkuð hefur áunnist á allra síðustu árin og má ma. nefna uppbyggingu gömlu húsanna við Laugveg 4-6 og hornið á Lækjargötu og Austurstræti.Gömlu verbúðirnar við Geirsgötu hafa gengið í endurnýjun lífdaga og nokkrir leikvellir hafa verið lagfærðir á svæðinu. Hljómalindarreiturinn var lagfærður verulega.

Ég minntist á nokkur baráttumál okkar hér í upphafi og vil minna á tillögu okkar að dagsektum vegna húsa í óreiðu.

Spennistöð OR fyrir Austurbæjarskóla og hverfið.
Heilsuverndarstöðin verði heilsugæsla.
Umferðamál –einstefna- hægja á umferð- fegrun gatna. “Shared spaces” nýja lausnarorðið í lausn á umferðarvanda. Engin ljós eða skilti.
Bílastæðamál. Liðkað hefur verið til með svæði þar sem íbúar leggja
Lagfæring á leikvöllum
Hótelíbúðavæðing. Hnignun íbúðahverfa.

( Viðbætur verða blaðlausar við þessa liði)

Mikið hefur veri rætt um betri borg, betri byggð eða “Reykjavík betri borg allan sólarhringinn”. Nú síðast í júlí ákvað borgarstjórn að setja á fót samstarsfhóp um örugga og skemmtilega miðborg sem starfi all árið, en þar eigum við fulltrúa. Hljómar þetta allt vel en greinilega þurfum við að vera vel á verði og fylgja málum eftir. Miðborgin hefur sína sérstöðu sem miðborg höfuðborgar og þrátt fyrir að þar búi yfir 8000 manns þarf að taka tillit til alls konar hagmunaaðilja eins og kaupmanna,veitingahúsaeigenda, hóteleigenda ofl. En það merkir ekki að einn hópur eigi að troða á öðrum eins og nú er.

Það var haldinn ágætur íbúafundur sl.vetur á vegum hverfisráðs. Tvennt stóð upp úr eftir fundinn: Í fyrsta lagi vilja íbúar minna á að taka verður tillit til þess, bæði varðandi skipulag og framkvæmdir að miðborgin er íbúabyggð, þar sem m.a. búa börn ekki síður en eru þar þjónustu-,verslunar-og rekstraraðiljar. Í öðru lagi kom sterkt fram andúð á þeirri þróun sem átt hefur sér stað með staðsetningu og opnunartíma vínveitingahúsa. Þar talaði Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona fulltrúi íbúa og mæltist henni vel ekki síst í lokin þegar hún hvatti til drykkju í heimabyggð fremur en endilega niðri í miðbæ.

Að lokinni skýrslu stjórnar var orðið gefið laust. Umræður, spurningar og svör er að finna undir 4. lið.

2. Endurskoðaðir reikningar samtakanna. Guðrún Janusdóttir gjaldkeri kynnti ársreikning, og var hann samþykktur einróma.

3. Lagabreytingar. Ekki voru lagðar til lagabreytingar að þessu sinni svo hlaupið var yfir þennan dagskrárlið.

4. Kjör formanns. Magnús Skúlason gefur kost á sér áfram til tveggja ára. Kosning samþykkt einróma með lófaklappi.

5. Kosning stjórnar. Óskað var eftir framboðum í stjórn. Arnar Kristjánsson og Hlín Gunnarsdóttir gefa kost á sér áfram til tveggja ára, samþykkt einróma með lófaklappi.

Stungið var upp á tveimur varamönnum til tveggja ára Stefáni Steindórssyni og Pálínu Jónsdóttur. Kosningin var samþykkt einróma með lófaklappi.

Kári Halldór Þórsson og Gylfi Kristinsson láta af stjórnarsetu og er þakkað fyrir vel unnin störf.

6. Kosning skoðunarmanna reikninga. Endurskoðendur reikninga eru kosnir sömu og áður, Björn Líndal og Þorsteinn Haradsson.

4-Önnur mál.

-Anna kom með fyrirspurn varðandi lög um byggingaleyfi, lengd gildistíma byggingarleyfa, samanborið við Norðurlönd?

-Gestur Ólafsson, þakkaði stjórn fyrir góð og vel unnin störf. Fyrirspurn um hvort stjórnin hafi haft afskipti af málum varðandi skipulag í Örfisey og væntanlegar uppbyggingu á lóð Landsspítalans og Samgöngumiðstöðvar sem og jarðgöng í gegnum Skólavörðuholtið.

-Hilmar Harðarson, telur ekkert mæla á móti jarðgöngum á Skólavörðuholti, og að mikilvægt sé að halda starfsemi í miðbænum.

-Gunnar Ólason, lýsir því hvernig íbúar eru í gíslingu verkfræðinga. Það sé stöðugt verið að breyta aðalskipulagi. Mikilvægt að í miðborginni fái áfram þrifist smáiðnaður og smáverslanir. Stórmarkaðir eigi ekki heima í miðborginni, hún henti ekki þeirri starfsemi. Sníða sér stakk eftir vexti. Varðandi bílastæðissjóð, fékk hann að vita að það voru ekki nema 4 íbúar á Njálsgötu sem höfðu beðið um gjaldkyldu. Hann reiknaði út að lefi fyrir bíl no.2 kosti 150.000 kr. á ári.

- Þorgerður Diðriksdóttir, talar um hávaða frá skemmtanahaldi á lóðum fyritækja sem snúa að íbúabyggð, bílastæðismál og gjaldskylda. Íbúar við Grettisgötu, milli Vitastígs og Frakkastígs undirrituðu nánast allir andmæli við fyrirhugaðri gjaldskyldu þegar átti að fara að koma upp skiltum og gjaldvélum. Bílastæðasjóður tók mark á andmælum íbúa og hætti við að setja gjaldskildu á svæðið.

- Margrét Einarsdóttir, deilir sjónarmiðum Þorgerðar og Gunnars, bílarnir fara ekki neitt, sama hvort um er að ræða gjaldskyldu / ekki gjaldskyldu.

- Gerla, segir að varðandi gjaldskyldu þá óskuðu íbúar við Laufásvegi eftir uppsetningu mæla vegna ágangs nemenda nærliggjandi skóla.

- Gestur Ólafsson, Á síðasta kjörtímabili fengum við ekkert endurskoðað deiliskipulag. Stefna og framtíðarsýn stjórnvalda er eins og þokubakki við sjóndeildarhring. Skipulagsgjald er innheimt til að búa til stefnu. Það er ekki hægt að bílastæasjóður sé með eina stefnu, skipulagið með aðra stefnu. Það er ekki við lýði neitt skipulag sem stendur undir nafni. Nauðsynlegt að fá skipulag fyrir miðborgina og klára sýn á hvert eigi að stefna.

- Benóný Ægisson, Félag fyrirtækja og verslunareigenda “Miðborgin okkar” fær árlega 3-5 milljónir í styrk frá borginni, m.a. úr bílastæðasjóð. Rétt væri að Íbúasamtökin fengju hærri framlög, mögulega einnig úr bílastæðasjoði.

- Pálína Jónsdóttir og Hulda Hákon, íbúar við Hverfisgötu 16. Kvarta undan starfsemi Bar 11. Íbúar ásamt Þjóðleikhússtjóra og Lögreglan óskuðu eftir því að aðeins yrði veitt leyfi í flokki II en ekki III, Íbúar fengu bréf frá Magnúsi Snædal byggingarfulltrúa þess efnis að búið væri að samþykja að veita leifi III. Ekki er þó enn búið að samþykja það hjá borgarráði. Íbúar óska eftir aðstoð og samstöðu í þessu máli, og var ákveðið að fundurinn ályktaði um málið. Var stjórn samtakanna falið að semja ályktun.

- Kári Halldór, varðandi gjaldskyldu. Sjónarmiðin eru ólík varðandi þetta mál og að það ætti ekki að vera sjórnsýslunni ofvaxið að spyrja íbúa á hverjum stað og taka tillit til ólíkra sjónarmiða í stað þess að segja einfaldlega að allir vilji eitt áveðið. Varðandi erfiða stöðu íbúa gagnvart bar 11, hvetur hann íbúa til þess að tala við úrskurðarnefnd ( Hjalti og Ómar). Áríðandi að íbúar fái umboðsmann varðandi skipulags og byggingamál um allt land. Jafnræðisreglan er brotin á íbúum og ekki geta íbúar dregið lögfræðikostnað frá launum eins og verkfræðingar.

- Hilmar Einarsson, Er orðinn leiður á tali um bílastæðismál og almennt úrræðaleysi borgaryfirvalda þegar kemur að málefnum miðborgarinnar.

- Gerla, beinir tilmælum til stjórnar að reynt verði að endurheimta leiksvæðið við Miðbæjarskólann. Það skjóti skökku við að skrifstofur málefna barna séu nú í húsnæði skólans og það fyrsta sem var gert var, var að leggja niður leikaðstöðuna og útbúa bílastæði.

- Hulda Hákon, Leggur til að íbúasamtökin óski eftir því við borgaryfirvöld að settar verði upp rafmagnsplötur “pissuvörn” þar sem íbúar óska eftir.

- Bryndís Jónsdóttir, leggur áherslu á samstöðu íbúa, leggur áherslu á mikilvægi upplýsingastreymis til íbúa. Stjórnin mun vinna að úrbætum þeirra mála.

- Hilmar, leggur til að í stað gjaldskyldu verði tekin upp klukka.

- Kristín Ólafsdóttir, íbúi og fulltrúi foreldra í skólaráði Austurbæjarskóla. Finnst skorta á að miðbærinn sé skilgreindur sem íbúahverfi. Hvetur til þess að íbúasamtökin standi fyrir málþingi um miðborgina sem íbúabyggð.

Magnús Skúlason formaður Íbúasamtakanna svarar fyrirspurnum:

Varðandi byggingaleyfi að það falli úr gildi eftir tvö ár. Að stjórnin hafi ekki tekið á þeim málum sem Gestur nefnir í sinni fyrirspurn, en hinsvegar gert athugasemdir varðandi Mýrargötuna.
Landsspítalinn er stórt mál og erfitt, umræðan krefjist dags-ráðstefnu.
Þétting byggðar-hversvegna að þétta byggð þar sem hún er þéttust fyrir.
Bílastæðismál, mikilvægt að íbúalýðræði sé virt og að ekki þurfi nauðsynlega eitt yfir alla að ganga.
Varðandi hávaða og pallavæðingu í görðum hefur sjórnin áform um að skoða þau mál.
Með vísun í Íbúa-fundinn sem Hverfisráð stóð að í Miðbæjarskólanum síðastliðið vor, þá átti að ganga í málin varðandi dagsektir og hávaðamál, ekki hefur orðið af því.
Spurningin er hvort hægt sé að finna leið til lausnar í eitt skipti fyrir öll.
Stjórnsýsluúttekt ráðgjafa borgarinnar standa í vegi fyrir því að stórnsýslan sé sett í gang. Embættismenn hafa tekið stjórnina í hendur sér.
Hverfisvernd er mikilvæg. Spurning, hvort nú sé svo komið að í næsta deiliskipulsgi verði aðeins talað um blandaða byggð í miðbænum og enga íbúabyggð. Það væri ógnvænleg þróun og mikilvægt að standa vörð um að slík hugmynd riðji sér ekki til rúms.
Varðandi bar11, þá var erindi Huldu Hákonar og Pálínu sem barst íbúasamtökunum síðastliðið vor kveikjan að því að óskað var eftir fundi með borgarstjóra. Sá fundur var síðan fyrst haldinn fyrir örfáum dögum og óljóst hver niðurstaða hans var.
Aðalfundur ályktar um Bar 11. Sjórn Íbúasamtakanna er falið að semja ályktun.
Varðandi fyrirspurn Gests. Íbúasamtökin munu krefjast svara um stefnu borgarstjórnar í borgarmálum.

5- Gestur fundarind Pétur H. Ármannsson flutti hugleiðingar um skipulagsmál.

UM ÞÉTTINGU BYGGÐAR OG ÞRÓUN MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

Pétur H. Ármannsson

Íbúasamtök miðbæjarins / erindi flutt á aðalfundi 16.11.2010.

Kynni mín af húsverndarmálum og umræðunni um þróun Reykjavíkur á undanförnum árum hafa vakið eftirfarandi spurningu: Er sú afmörkun miðborgar sem áætlanir um þéttingu hennar og þróun byggja á of þröng? Í reynd nær miðlægt atvinnu- og þjónustusvæði Reykjavíkur yfir mun stærra svæði en núgildandi skilgreining miðbæjar sýnir. Eftir línulegum ás frá vestri til austurs, frá Kvosinni upp með Laugavegi og inn með Suðurlandsbraut allt að Mörkinni í austri. Á þessum austursvæðum miðbæjarins er meira svigrúm fyrir þéttingu byggðar til lengri tíma litið en í gamla bænum. Þar er mögulegt að byggja stórar einingar án þess að raska viðkvæmu umhverfi. Ný og framsækin byggingarlist fær þar notið sín í stærri sniðum þó markmiðið hljóti ávallt að skapa fallegt og lifandi borgarumhverfi.

Tímabært er orðið að elsti hluti miðbæjarins verði skilgreindur úr frá sérstöðu sinni sem hinn sögulegi kjarni borgarinnar, ekki sem hinn eini MIÐBÆR heldur sem elsti og mikilvægasti hlekkurinn í langri keðju. Þar yrði lögð áhersla á að efla og styrkja þau gæði í umhverfi og byggingarlist sem gerir þetta svæði einstakt og eftirsóknarvert. Fínlegur mælikvarði er dýrmætasti eiginleiki elsta hluta Reykjavíkur. Smáar einingar en fjölbreytilegar í litum og stíl. Þannig er gamla Reykjavík og þau einkenni hennar ber að standa vörð um. Miðborgin er ekki vandamálið heldur viðhorf okkar til hennar, oft það erum við sem erum blind á gæði hennar.

Að létta mestu pressunni af gamla miðbænum þýðir ekki að hann eigi hætta vaxa og þróast. En í grónum hverfum verður að nálgast viðfangsefnið á forsendum þess sem fyrir er. Það er misskilningur að varðveisla gamalla húsanna dragi úr möguleikum á hagkvæmri nýtingu í kraft við kröfur tímans. Ótal möguleikar að breyta og laga, flétta saman nýtt og gamalt. Í þróunarverkefnum getur verndun húsa skilað góðum arði. Hún getur verið leið til að skapa sátt um einstök verkefni og getur leyst þann vanda sem felst í því að laga stórar einingar að smágerðum mælikvarða gamla bæjarins.

HEFUR MIÐBÆR REYKJAVÍKUR VERIÐ SKILGREINDUR OF ÞRÖNGT?

Sérstaða Reykjavíkur í skipulagslegu tilliti mótast af þeirri staðreynd að hún er byggð á löngu en tiltölulega mjóu nesi. Elsti bæjarhlutinn liggur út við jaðarinn fyrir miðju nesinu. Sökum þess hafa aldrei verið forsendur fyrir jöfnum hringvexti borgarinnar í allar áttir út frá miðju. Fyrsta heildarskipulag Reykjavíkur frá árinu 1927 tók til þess svæðis sem í dag er þekkt sem póstnúmer 101. Á þeim tíma má segja að jafnvægi hafi verið milli miðbæjarins og íbúðasvæðanna umhverfis. Skilgreint þróunarsvæði miðborgar Reykjavíkur liggur enn innan marka skipulagsins frá 1927 enda þótt umfang byggðarinnar og allar vegalengdir hafi margfaldast. Fullvaxinn borgarlíkaminn er með höfuð hvítvoðungs.

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur sem unnið var á árunum 1960-65 skyldi nýr miðbær byggður ofan í þann gamla. Það þýddi stórfellt niðurrif gamalla húsa til að rýma fyrir stórbyggingum, bílastæðum og umferðaræðum. Til að létta á gamla bænum var jafnframt gerð tillaga um nýjan verslunarmiðbæ austar í borginni. Ýmsir staðir voru skoðaðir, m.a. svæðið við gatnamót Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar, þar sem nú eru gatan Engjateigur og Nordica-hótel handan götunnar. Niðurstaðan varð, illu heilli, að reisa miðbæinn einum gatnamótum ofar við Kringlumýrarbraut, á núverandi Kringlusvæði. Þó svo að það svæði lægi að fjölfarnari gatnamótum hafði það þann veigamikla ókost að vera umlukið íbúðarhverfum og hlaut því að verða einangrað eyland, án möguleika á línulegri tengingu við gamla bæinn. Fyrri staðurinn hafði þann augljósa kost að vera í beinum tengslum við enda gamla miðbæjarins við Hlemm auk þess sem nægilegt svigrúm var til vaxtar austur eftir Suðurlandsbraut.

Eins og fram kemur í bók Trausta Valssonar, Reykjavík Vaxtarbroddur, dróst að framkvæmdir hæfust við uppbyggingu hins nýja miðbæjar á sjöunda áratugnum. Sú verslunarstarfsemi, sem þangað hefði átt að fara strax tók að dreifast um fyrirhugað iðnaðarsvæði inn með Suðurlandsbraut og í Skeifunni. Afleiðingin er sú að í því „einskis manns landi“ eru í dag margar þær stofnanir, verslanir og fyrirtæki sem eðlilegt væri að finna í hjarta miðbæjar. Starfsemin er í misvönduðum iðnaðarhúsum sem reynt hefur verið að endurbæta með ærnum tilkostnaði. Þessi þróun varð hægt og hljóðlaust, þrátt fyrir allt skipulag, á sama tíma og öll athygli skipulagsyfirvalda beindist að útfærsluatriðum í Kringlunni og í gamla bænum.

Nýjasti kaflinn í þessari þróun er fjármálahverfið við Borgartún. Það var vissulega endurskipulagt með tilliti til breyttrar landnotkunar og þéttingar byggðar. Mjög skortir á samræmi og listræna heildarsýn í mótun hinnar nýju byggðar, bæði hvað varðar ásýnd á móti hafinu og því að skapa vistlega og fallega götumynd. Engu er líkara að hver lóð við Borgartúnið hafi verið skipulögð ein og sér án nokkurs tillits til heildarinnar. Hin nýju og glæsilegu skrifstofuhús fljóta um, ósamstaðstæð og umkomulaus, í hafi bílastæða, án merkjanlegra tengsla við stað og umhverfi.

Brýnt er orðið að skoða hugmyndina um miðbæ Reykjavíkur í nýju ljósi og endurmeta samband hennar við aðra hluta borgarinnar. Til að svo megi verða þarf að líta til stærra svæðis en hingað til hefur verið gert. Áður en tekin verður ákvörðun um nýtingu Flugvallarsvæðis og hluta Vatnsmýrar undir byggð er nauðsynlegt að horfa á borgina í heild sinni, skoða virkni hennar og innbyrðis tengsl ólíkra hluta. Vandamálin liggja utan Vatnsmýrarsvæðisins en ekki innan þess. Að horfa einungis á hið óbyggða svæði og jaðra þess er ekki vænleg leið til greina möguleika þess. Ef markmiðið með uppbyggingu á flugvallarsvæðinu á að vera að efla gamla miðbæinn þarf að hafa í huga þá anmarka sem eru á tengingu svæðisins við Kvosina og Laugaveginn. Þar á milli, beggja vegna Tjarnarinnar, eru rótgróin og vernduð íbúðahverfi með þröngum götum sem gefa lítið svigrúm til greiðari tenginga. Ef illa tekst til gætu fyrri Kringlumistök borgarinnar endurtekið sig og nýja byggðin í Vatnsmýrinni orðið einangrað eyland í samkeppni við miðbæinn.

KVOSIN-KELDNAHOLT, LÍNULEGUR MIÐBÆR

Sem innlegg í umræðuna um skipulag Reykjavíkur vil ég vekja athygli á hugmynd, sem kalla mætti Kvosin-Keldaholt, línulegt miðbæjar-, þjónustu og atvinnusvæði Reykjavíkur frá austri til vesturs. Ólíkt hástemmdum hugmyndum um eyjabyggðir og landfyllingar er þessi hugmynd tiltölulega jarðbundin. Í reynd er hún aðeins ábending um þróun sem þegar hefur átt sér stað og teikn eru á lofti um að muni halda áfram, hvað sem öllum áætlunum líður. Hún í samhljóm við þá skoðun að eðlilegasta þróun borga sé sú sem gerist hægt og sígandi á löndum tíma. Hugmyndin felst í því að viðurkenna í hugsun og verki línulegan vöxt miðborgarinnar til austurs, frá Kvosinni í vestri að Mörkinni í austri, og til lengri tíma litið áfram yfir á Ártúnshöfða allt að Keldnalandi. Þetta felur í sér að gamli miðbæinn er skilgreindur út frá sérhæfðu hlutverki sínu og umhverfisgæðum, sem hinn sögulegi kjarni og aðsetur æðstu stjórnsýslu og menningarstofnana. Ekki sem hinn eini MIÐBÆR heldur sem elsti og mikilvægasti hlekkurinn í langri keðju.

Með því að endurhanna framhald Laugarvegarins austan við Hlemm og áfram inn með Suðurlandsbraut sem fallega borgargötu, yrði til línuleg hryggsúla eftir endilöngu nesinu. Þar yrðu öflugar almenningssamgöngur í báðar áttir, hjólastígar og gönguleiðir, auk hefðbundinnar bílaumferðar. Slík gata yrði manneskjulegur valkostur samsíða Miklu (hrað)brautinni, sem í dag er helsta tenging úthverfanna í austri við gamla miðbæinn. Með þessum umhverfisbótum er verið að nýta dýrmæta fjárfestingu sem fyrir er á svæðinu, t.d. í hótelum og skrifstofuhúsum, í stað þess að reisa ný hverfi frá grunni. Með því að framlengja hinn nýja Laugaveg enn frekar með nýrri brú yfir Breiðholtsbraut og Elliðaárósa yrði stigið mikilvægt skref í þá átt að tengja ytri úthverfi Reykjavíkur við byggðina á nesinu. Að hinum línulega ás liggja mikilvæg þróunarsvæði sem sjá má fyrir sér að gangi í gegnum sams konar endurnýjun og Borgartúnið. Þar má nefna Brautarholt og Skipholt (Hlemmur plús), Suðurlandsbraut og Múlahverfi, Skeifan, Fenin, Dugguvogur og Ártúnshöfði, allt inn að Keldnaholti. Öll svæðin uppfylla þau skilyrði sem hugmyndin um endurnýtingu lands felur í sér og mörg þeirri bjóða auk þess upp á heillandi staðhætti, t.d. við ósa Elliðaáa, vesturhlíð Ártúnshöfða og ströndin inn að Bryggjuhverfinu. Til yrði samhangandi atvinnu-, þjónustu- og íbúðarsvæði með blandaðri, þéttri borgarbyggð sem hefði þann ótvíræða kost að liggja að flestum stærri íbúðahverfum borgarinnar. Mun fleiri borgarbúar en ella ættu þess kost að búa í göngufæri við hið stækkaða miðbæjarsvæði. Í stað þess að einskorða þéttingu byggðar og eflingu mannlífs við vestanvert nesið myndu allir hlutar borgarinnar njóta góðs af og Reykjavík þróast í þá átt að verða ein borgarheild, fremur en aðgreindir hverfishlutar tengdir saman af neti hraðbrauta.

Byggt á greininni KVOSIN – KELDNAHOLT í Lesbók Mbl, 17.9. 2005.

Greinin birtist í endurbættri mynd í bók Snorra Freys Hilmarssonar, 101 Tækifæri, sem út kom á vegum Torfusamtakanna árið 2009.

Fundi var slitið kl.22:30

Fundargerð ritaði Hlín Gunnarsdóttir

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is