ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Bætt verslun og þjónustaÍbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur boða til hugflæðifundar um bætta verslun og þjónustu við íbúana í miðbænum laugardaginn 9. nóvember kl. 13-15 í Spennistöðinni, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar. Það er tilfinning margra sem búa í miðbænum að þjónusta hafi versnað og verslun orðið fábreyttari á undanförnum árum að minnsta kosti hvað íbúana varðar. Því vill stjórn Íbúasamtakanna að íbúarnir setjist niður og ræði um og kortleggi hvað þeir hafa, hvað þá vantar og hvernig þeir geti fengið það sem þá vantar. Rekstraraðilar og aðrir sem eru að leita að viðskiptatækifærum í miðbænum eru hjartanlega velkomnir að borðinu. Margir þeirra sem búa í miðbænum hafa sest þar að vegna þess að það er stutt í alla þjónustu og hægt er að fara flestra sinna ferða fótgangandi. Þeir eru því ekki sáttir við að þurfa að setjast uppí bíl og aka í önnur hverfi eftir brýnustu nauðsynjum. Því verður vart á móti mælt að mikið af verslun og þjónustu sem áður fyrirfannst í miðbænum er nú horfin eða hefur dregist verulega saman. Þar má m.a. nefna matvöruverslanir, banka, pósthús, ýmis viðgerðafyrirtæki og verslanir sem selja efni og hina ýmsu varahluti og síðast en ekki síst opinbera þjónustu sem áður var að mestu í miðbænum en er nú flutt í úthverfin. Það skýtur því nokkuð skökku við ef það er markmiðið að þétta byggð og að sem flestir geti stundað bíllausan lífsstíl að það sé verið að færa þjónustuna fjær fólki en ekki nær. Íbúar miðborgarinnar gera sér grein fyrir því að allt er breytingum háð því það er hvergi jafn augljóst og í miðborginnni, hún breytist stöðugt, nú síðast fyrir tilstilli ferðaþjónustunnar. Íbúunum er hinsvegar mikið í mun að breytingar verði til batnaðar fyrir þá því það er mikilvægt að í miðbænum búi fólk ekki síst vegna ferðamannanna sem hafa lítinn áhuga á að vera í mannlausu túristagettói. Spennistöðin, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar er á Barónsstíg 32, fyrir sunnan Austurbæjarskóla og er auðþekkjanleg á stórri blómamynd á gaflinum. Íbúar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðunni. Fundargerð Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur héldu hugflæðifund um bætta verslun og þjónustu við íbúana í miðbænum laugardaginn 9. nóvember 2019 í Spennistöðinni, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar. Leitast var við að svara eftirfarandi spurningum: Hvaða verslun og þjónustu höfum við? Fundargestir voru færri en venjulega á málþingum Íbúasamtakanna eða það bil fimmtán en umræður voru fjörugar og lausnamiðaðar. Það sem við höfum er: Niðurstaða umræðnanna var sú að þó svo verslunum með nauðsynjar fyrir íbúa hafi fækkað mikið í miðbænum og ýmis þjónusta td opinberra stofnana hafi færst út í úthverfin þá sé hverfið ekki svo illa statt miðað við önnur hverfi. Þó væri hægt að gera miklu betur og íbúar þurfa að vera duglegir við að styðja við þá verslun sem þeir vilja halda í. Hvað vantar okkur? Nokkrar umræður urðu í framhaldinu um hvað væri brýnast og virtist það vera pósthús og kjötverslun og kallað var eftir matarmarkaði sem seldi ferskt hráefni. Miðborgarfulltrúi benti á að matarmarkað væri að finna í Kolaportinu. Líklega væri Bónus að koma á Skúlagötu þar sem Olís er núna. og Súper1 væri búið að bæta úrvalið hjá sér. Orðrómur er uppi um að matarmarkaður sé í uppsiglingu í gamla Pósthúsinu í Pósthússtræti og upp kom hugmynd um matarmarkað í kjallara Hallveigarstígs 1. Edda frá Miðborginni okkar kynnti nýjar upplýsingar frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Árið 2015 voru 250 verslanir við helstu aðalgötur en 240 árið 2019 en sé svæðið allt að Granda tekið þá eru komnar þar 275 verslanir. Þá kom fram að tóm svæði eru 16 í dag við aðalgötur. Fundargestir töldu að háir fasteignaskattar í miðbænum og oft á tíðum himinhá leiga gerðu einyrkjum erfitt fyrir að koma á fót einhvers konar sérverslunum. Samtökin vilja standa fyrir hvatningu til íbúa miðbæjarins að okkar sé ábyrgðin að versla í heimabyggð og styðja sem mest og best við þjónustu sem nýtist okkur íbúum og sem dæmi má nefna þá þurfa fregnir af nýrri fiskbúð að berast sem víðast. |
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |