ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Skammdegisgleði Íbúasamtakanna 2020Hækkandi sól verður fagnað með skammdegisgleði Íbúasamtakanna í Spennistöðinni, menningar og félagsmiðstöð miðborgarinnar laugardaginn 8. febrúar kl. 13-15. Skammdegisgleðin átti að vera 11. janúar sl en var þá frestað vegna slæmrar veðurspár en þetta er fjölskylduskemmtun og íbúar á öllum aldri eru hvattir til að mæta og flýta fyrir vorkomunni með góðu skapi og skemmtilegu fasi! Dagskráin verður ekki af verri endanum, tónlistarflutningur, danskennsla og föndur og svo verður eitthvað maul á staðnum fyrir svanga sælkera. Kári Egilsson, ungur píanóleikari úr miðbænum mun leika djass og klassíska tónlist, frumsamda og eftir aðra. Kári hefur getið sér gott orð fyrir leik sinn og hlaut fyrir rúmu ári hvatningarverðlaun ASCAP sem eru samtök tónskálda í Bandaríkjunum fyrir framlag sitt sem upprennandi tónskáld og lagahöfundur. Skólahljómsveit Vesturbæjar og miðbæjar tekur við af Kára en það er miðsveit hljómsveitarinnar sem leikur en það eru krakkar í 5. og 6. bekk en stjórnandi er Ingi Garðar Erlendsson. Þá mun Mike frá Salsa Íslandi kenna miðborgurum að hrista hina aðskiljanlegu líkamsparta að suðuramerískum hætti í sjóðheitum salsadansi. Á efri hæð Spennistöðvarinnar verður Arite Fricke með spuna og myndskreytingasmiðju þar sem krökkum gefst tækifæri til að skrifa stutta sögu eða ljóð og myndskreyta bók um textann. Í þessari smiðju má kramsa í allskonar efniviði eins og pappaumbúðum af jólapökkum, snæri, ull og öðru áhugaverðu efni sem hentar fyrir myndskreytingu. Efnið fær svo nýtt líf í skemmtilegri harmóníkubók, til dæmis sem hár og föt fyrir tröll og álfa, geimverur, róbota, mjúk dýr eða furðuverur sem eru aðalpersónur á sögusviðinu sem höfundurinn býr til. Arite er hönnuður og myndmenntakennari og hefur áður verið með flugdrekasmiðju í Spennistöðinni. Spennistöðin, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar stendur við Barónsstíg fyrir sunnan Austurbæjarskóla og Skammdegisgleðin er hluti af verkefni Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur, Heil brú sem Reykjavíkurborg styrkir. Ungir og aldnir eru hvattir til að mæta og hlusta á unga tónsnillinga, dansa salsa og búa til myndasögur. Eða gæða sér á léttum veitingum og ræða gagn og nauðsynjar hverfisins. Aðgangur ókeypis og öllum heimill!
|
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |