ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Framkvæmd byggingareftirlits

Reykjavík, 25. febrúar 2010.

Skipulagsráð Reykjavíkur,
b.t. Júlíusar Vífils Ingvarssonar formanns, Borgartúni 12 – 14, 105 Reykjavík.

Efni: Samþykkt stjórnar Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur um framkvæmd byggingareftirlits.

Á fundum stjórnar Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur hefur verið fjallað um framkvæmd á ákvæðum 61. gr. byggingarreglugar nr. 441/1998. Fram hefur komið megn óánægja með framkvæmd á ákvæðum þessarar greinar. Hún beinist fyrst og fremst að aðgerðarleysi stjórnvalda byggingarmála í borginni og ómarkvissum vinnubrögðum. Afleiðingin hefur birst borgurum í ýmsum myndum. Íkveikjur í auðum húsum sem hafa valdið mannskaða og eignartjóni eru of algengir atburðir. Hrörlegt ástand útkrotaðra húsa veldur verðfalli fasteigna í næsta nágrenni. Sú hryggðarmynd sem mætir borgurunum á hverjum degi sviptir þá þeim lífsgæðum sem þeir eiga rétt á og borgaryfirvöld eiga að tryggja þeim samkvæmt framgreindri byggingarreglugerð. Nýjustu tíðindi virðast benda til þess að borgaryfirvöld séu að rumska og hafi í einhverjum tilvikum sent verstu slóðunum aðvörunarbréf og krafist úrbóta að viðlögðum dagsektum eins og byggingarreglugerðin heimilar.

Á grundvelli framangreinds samþykkti stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur á fundi sínum 22. febrúar 2010 að krefjast þess að stjórnvöld byggingarmála í Reykjavík framfylgi ákvæðum í 61. gr. byggingarreglugerðarinnar. Sérstök áhersla verði lögð á ákvæði í 6. mgr. greinarinnar sem fjallar um húsnæði sem er í þannig ástandi að ásigkomulag þess er ábótavant eða af því stafi hætta eða það sé heilsuspillandi og eða óhæft til íbúðar. Ekki verði hikað við að beita heimild til dagsekta til að knýja húseigendur til að halda íbúðahúsnæði í ástandi sem sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og um það verði mynduð heildstæð stefna. Ef ekki verður brugðist við af hendi húseigenda gæti borgin eignast viðkomandi húseignir og síðan úthlutað þeim til þeirra sem áhuga hafa á að eignast þær og lagfæra að settum ströngum skilmálum um frágang og tímasetningu.

F. h. stjórnar Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur,

Magnús Skúlason formaður.

Afrit: Borgarstjórinn í Reykjavík,
Hverfisráð miðborgar Reykjavíkur.
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is