ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Bergstaðastræti 18, flutningshús

Reykjavík, 10. október 2011

Skipulagsráð Reykjavíkur
Borgartúni 12-16
105 Reykjavík

Efni: Bergstaðastræti 18, flutningshús.

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar hafa verið beðin álits á flutningi hússins sem áður stóð á lóðinni 74 við Laugaveg á lóðina nr. 18 við Berstaðastræti 18.

Húsinu var bjargað af Laugavegi þar sem deiliskipulag gerði einungis ráð fyrir varðveislu götuhliðar þess. Það hefur beðið örlaga sinna frá 2007 úti í Örfirisey en mun vera lítið skemmt

Á umræddri lóð er í deiliskipulagi gert ráð fyrir flutningshúsi. Lóðirnar nr.16-20 hafa verið í niðurníðslu árum saman af ástæðum sem ekki verða tíundaða hér, nágrönnum til armæðu og borginni til lítils sóma.

Húsið er vegna stærðar og aldurs kjörið til að brúa bilið milli nr.16 og 20 þar sem framkvæmdir eru hafnar við endurbætur. Þarna er því kjörið tækifæri til að ljúka við götumynd Bergstaðastætis á viðeigandi hátt.

Stjórn íbúasamtakanna mælir því eindregið með með flutningi hússins á ofangreinda lóð.

Virðingarfyllst

Magnús Skúlason
formaður

Afrit: Ólafur Egilsson
Bergstaðastræti 14
101 Reykjavík.


Bréf umsækjenda

Við, Ólafur Egilsson, Esther Talía Casey og Kristján S. Kristjánsson, höfum lagt inn umsókn hjá Reykjavíkurborg um að fá að flytja hús sem áður stóð á Laugavegi 74 á reitinn Bergstaðastræti 18.

Okkur langar til að biðja stjórnina að veita umsögn um þessa fyrirætlun okkar, með tilliti til húsverndunarsjónarmiða og eflingu íbúabyggðar í miðborginni.

Rök okkar fyrir því að húsið eigi vel heima á reitnum Bergstaðastræti 18 eru eftirfarandi:

Skipulag gerir ráð fyrir að reiturinn Bergstaðastræti 18 sé nýttur sem flutningshúsareitur svo framkvæmdin kallar ekki á neinar deiliskipulagsbreytingar.

Húsið er vel innan hæðar og magnkvóta, samkvæmt úttekt Margrétar Þormar arkitekt hjá skipulagsstjóra. (Sjá meðfylgjandi tölvupóst)

Húsið, sem hefur verið í geymslu úti á Granda frá árinu 2007, er laust og heilt. Það fer hinsvegar ekki aftur á sinn stað, þar er búið að byggja annað hús.

Reiturinn er lengi búinn að vera lýti á svæðinu, gengi þetta eftir er hægt að ganga frá reitnum með sóma.

Húsafriðunarnefnd lagði eindregið til á sínum tíma, þegar húsið var futt, að það yrði varðveitt og því fundinn annar staður innann borgarmarkanna. Nikulás Máson hjá húsafriðunarnefnd telur lóðina á Bergstaðastræti 18 henta vel.

Reykjavíkurborg hefur borið því við að húsið sé ekki nægilega merkilegt - og lóðina Bergstaðastræti 18 eigi að geyma fyrir merkilegri hús eða önnur hús sem þurfi að víkja af "Skipulagsástæðum." Þessu erum við ósammála. Húsið er merkilegt, það er 109 ára gamalt, og var samkvæmt húsverndunarskrá Reykjavíkur í dökkgulum flokki, verndun götumynda, húsaraða og húsa með umhverfisgildi. Það er afar nálægt nærliggjandi húsum á Bergstaðastræti í aldri sem flest eru byggð á árunum 1893-1913. Auk þess sem húsið er okkur persónulega merkilegt, það tilheyrir fjölskyldusögu okkar: Afi Ólafs, Ólafur Á. Egilsson, er fæddur í þessu húsi, var með kindur í bakgarðinum og bjargaðist úr eldsvoða í húsinu þegar langafi Egill vafði hann inn í gólfteppi og hljóp með hann út.

Þá má líka spyrja sig að því að ef lóðin á að standa auð til að flytja megi þangað önnur, merkilegri hús, hvort það sé þá stefna borgarinnar að flytja til sögulegustu hús Reykjavíkur? Með því að setja á þennan reit hús núna er verið að koma í veg fyrir enn frekari húsaflutninga, rask og brask í framtíðinni.

Ef stefna Reykjavíkurborgar er hisnvegar sú að gera framvegis minna af því að flytja hús af sínum upprunalega stað þá eru líkur til þess að færri tækifæri sem þetta komi upp, sem fyllt geta þetta skarð.

Með því að gera okkur kleift að endurgera húsið á lóðinni Bergstaðastræti 18. sem heimili okkar er verið að festa í sessi samfélag fólks og fjölskyldna sem býr og starfar í miðborginni.

Við höfum leitað álits eigenda nálægra húsa og þeir eru afar jákvæðir gagnvart því að fá húsið á þennan reit. Nánustu grannar til beggja hliða (16 og 20) og hinu megin götu (17 og 19) hafa góðfúslega undirritað yfirlýsingu þess efnis.

Húsið yrði keypt og gert upp af okkur í samstarfi við núverandi eiganda þess, Kristján S. Kristjánsson sem gert hefur upp steinbæinn á númer 22. og hlotið lof fyrir. Núna er loksins verið að gera upp húsið á númer 20 og húsið á númer 16 sem staðið hafa í niðurníðslu svo árum skiptir. Ef okkur yrði gert kleift að endurgera þetta hús á milli þeirra yrði götumyndin á milli Bjargarstígs og Spítalastígs innan fárra ára orðin óbrotin röð fallegra uppgerðra húsa.

Það er okkar mat að húsið myndi samfellu við þau hús sem fyrir eru, og nokkurskonar millistig í stærð og vegleika á milli húsanna á númer 16 og 20. Við höfum leitað til Torfusamtakanna sem tóku erindi okkar vel og eru að útbúa umsögn um fyrirætlun okkar.

Bestu kveðjur.

Ólafur Egilsson
Bergstaðastræti 14
101 Reykjavík.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is