ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Ályktun aðalfundar ÍMR 2019

Skipulags og samgönguráð Reykjavíkur Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður

Ályktun aðalfundar Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur 17. október 2019

Ályktun: Þann 10. september s.l. gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út leyfi til að reka billjardkrá í húsinu númer 8 við Skólavörðustíg en þar var áður hárgreiðslustofa. Allmargar íbúðir eru í húsinu og nærliggjandi húsum en ekki var hirt um að grenndarkynna þessa breytingu á notkun fyrir íbúunum og komust þeir ekki að henni fyrr en í byrjun októbermánaðar þegar framkvæmdir hófust í húsnæðinu. Þó hefði öllum mátt vera ljóst að breyting úr hárgreiðslustofu sem lokar kl. 18 yfir í sportbar með vínveitingaleyfi sem lokar um miðnætti eða síðar er veruleg og til þess fallin að valda íbúunum ónæði. Aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar skorar á skipulagsyfirvöld í Reykjavík að taka til endurskoðunar þá túlkun sína að verslun og þjónustufyrirtæki séu jafngild og vínveitingastaðir þegar kemur að úthlutun leyfa og afturkalla leyfi til rekstrar þessa sportbars.

Greinargerð: Þann 5. október s.l. komust íbúar á Skólavörðustíg 8 að því að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafði samþykkt umsókn Northern star á Íslandi ehf. um leyfi til að reka billjardstofukrá með vínveitingarleyfi í húsinu þann 10. september 2019. Enginn kynning hafði farið fram á þessari breytingu en í húsnæðinu var áður hárgreiðslustofa. Ljóst er að veruleg breyting er á nýtingu húsnæðisins og sú breyting er líkleg til að valda íbúum ónæði en sex íbúðir eru í sama húsi og um fimmtán í nærliggjandi húsum nr. 10 og 6b. Breyting úr hárgreiðslustofu sem lokar kl. 18 í vínveitingastað sem lokar um miðnætti eða síðar hlýtur að teljast veruleg og hefði því átt að grenndarkynna breytingun skv. 43. grein skipulagslaga.

Það liggur í augum uppi að vínveitingastaður sem jafnframt er spilasalur er til þess fallinn að valda ónæði í næsta nágrenni og kalla á mikið eftirlit og löggæslu. Inngangur í húsnæðið er baka til frá bílastæðahúsinu Bergsstöðum þar sem einnig er gengið inn í íbúðirnar en Skólavörðustígsmegin er staðurinn á annari hæð. Ljóst er að starfseminni mun fylgja ónæði og óþrifnaður, þ.a.m. vegna reykinga auk þess sem neyðarútgangur úr billjarðsstofunni mun leiða inn á stigagang þar sem eru íbúðir. Þá kemur fram í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar að ekki sé heimilt að reka spilasal og vínveitingastarfsemi í sama rými.

Í 27. grein fjöleignarhúsalaga segir svo: „Breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum, eru háðar samþykki allra eigenda hússins.“ Umsóknin var ekki kynnt íbúum og eigendum nágrannafasteigna og hvorki fór fram grenndarkynning né annað skipulagsferli. Þó er það víðtekin venja að hagsmunaaðilum sé kynnt um breytta notkun á húsnæði, ekki síst þegar um veitingahús er að ræða.

Á deiliskipulagsreit 1.171.2 sem markast af Skólavörðustíg, Bergsstaðastræti, Hallveigarstíg, Ingólfsstræti og Bankastræti eru nú níu veitingastaðir en einnig eru sex til viðbótar við göturnar sem afmarka reitinn. Það er því enginn hörgull á veitingastöðum á reitnum og spurning um hvort þeir séu ekki orðnir of margir og ógni íbúabyggðinni á reitnum verulega.

Í ljósi alls þessa er skorað á Skipulags og samgönguráð að að fella byggingaleyfi Northern star á Íslandi ehf á Skólavörðustíg 8 úr gildi.

F.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur
Benóný Ægisson formaður

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is