ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Breyting á deiliskipulagi Grundarstígsreits

Reykjavík, 16. ágúst 2011

Skipulagsráð Reykjavíkur
Borgartúni 12-14
105 Reykjavík

MÁL: Grundarstígsreitur. Athugasemdir við deiliskipulagstillögu.

Í tillögu að deiliskipulagi á reit 1.183.3, sem markast af Grundarstíg, Skálholtsstíg, Þingholtsstræti og Spítalastíg er gert ráð fyrir að heimilt verði að reka menningarstarfsemi og kaffihús í húsinu að Grundarstíg 10. Íbúar í nágrenni við Grundarstíg 10 hafa verulegar áhyggjur af þessum breytingum vegna aukinnar umferðar, hávaða og fordæmisgildis þess að leyfa slíka starfsemi í íbúahverfi.

Stjórn Íbúasamtaka miðborgarinnar er hlynnt allri menningarstarfsemi í miðborginni en skilur áhyggjur íbúanna enda höfum við horft upp á það undanfarna tvo áratugi að Þingholtin hafa verið að breytast úr friðsælu íbúðarhverfi í skemmtanahverfi höfuðborgarsvæðisins auk þess sem einsleit atvinnustarfsemi vegna ferðamennsku hefur gert strandhögg í hverfinu.

Íbúar Þingholtanna hafa þurft að horfa upp á það að hávaðasamir skemmtistaðir hafa færst inn eftir hliðargötum inn í hverfið eftir að barkvótinn á Laugaveginn varð uppurinn og eru mýmörg dæmi um að staðirnir hafi opnað sem menningarleg kaffihús með opnunartíma innan skynsamlegra marka en breyst skömmu síðar í hávær diskótek sem eru strafrækt fram á morgun um helgar. Íbúarnir í nágrenni þessara staða eru orðnir langþreyttir á ástandinu í kringum þá, þarsem næturró þeirra er spillt með hávaða og skrílslátum og eigur þeirra skemmdar.

Nú er yfirlýstur tilgangur starfseminnar á Grundarstíg 10 menningarstarfsemi, sem stjórn Íbúasamtakanna sér enga ástæðu til að efast um það. Efasemdir okkar snúa fremur að því hvort svo verði um alla framtíð þar sem ekki verður sagt um að borgaryfirvöld hafi gætt sjálfsagðra réttina miðborgarbúa þar sem m.a. rekstraraðilar veitingastaðanna hafa nánast getað hagað sér að vild. Ekkert virðist tryggt í þessum efnum og einnig virðast borgaryfirvöld og lögregla ekki hafa viðeigandi meðul til að hafa stjórn á ástandinu, reglugerðir og lög líkjast helst gatasigti þar sem viðurlög eru ekki í augsýn gegn ítrekuðum brotum.

Að framansögðu telur stjórn Íbúasamtakanna ekki ástæðu til að gera athugasemdir við deiliskipulagstillöguna nema hvað varðar sérskilmála um Grundarstíg 10 þar sem stendur: Um mannfagnað og veitingarekstur í húsinu fer eftir "Málsmeðferðarreglum Borgarráðs um veitingastaði og gististaði" og Aðalskipulagi hverju sinni. Stjórn Íbúasamtakanna hefur uppi verulegar efasemdir um þessa skilmála sem stjórnin telur engan veginn fullnægjandi til að gæta réttinda íbúa og telur að gera þurfi bragarbót þar á einkum hvað varðar staði sem eru í íbúabyggð. Stjórn Íbúasamtakanna er boðin og búin til að aðstoða borgaryfirvöld við þá vinnu.

Virðingarfyllst

fh. stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar
Magnús Skúlason formaður

Afrit: Borgarstjóri
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins
Fjölmiðlar
Umhverfis-og samgönguráð
Hverfisráð Miðborgar
Borgin okkar

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is