ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Ályktun um úthlutun Miðborgarsjóðs til ÍMR

Verkefnisstjórn miðborgarmála
Stefán Eiríksson borgarritari og formaður stjórnar

Ályktun: Þann 28. september samþykkti borgarráð úthlutun úr nýstofnuðum Miðborgarsjóði þar sem Íbúasamtökum Miðborgar Reykjavíkur var úthlutað einni milljón króna. Úthlutunin nemur u.þ.b. 3% af úthlutuðu fé sjóðsins og stjórn Íbúasamtakanna harmar þann hug sem kemur fram í þessari úthlutun en stjórnin stóð í þeirri meiningu að tilgangur sjóðsins væri m.a. að styrkja nærsamfélagið í miðborginni sem á margan hátt stendur höllum fæti. Þessi úthlutun er sú eina sem ætluð er sjálfsprottnum verkefnum íbúanna og til samanburðar fær Miðborgin okkar, félag kaupmanna og rekstraraðila í miðborginni 15 milljónir úr sjóðnum eða 50% af honum. Af ástæðum sem hér verða raktar í greinargerð sér stjórn ÍMR sér ekki annað fært en að afþakka þennan styrk.

Greinargerð

Umsókn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur
Miðborg Reykjavíkur er flóknari að samsetningu en önnur hverfi borgarinnar og því er hlutverk ÍMR margþættara en íbúasamtaka í öðrum hverfum. Í miðborginni er fjöldi hagsmunaaðila meiri og meiri hreyfing á íbúunum en í öðrum hverfum og það leiðir af sér að hagsmunagæsla er íbúunum þeim mun mikilvægari en hverfisvitund er á margan hátt minni meðal þeirra en íbúa annarra hverfa. Þessvegna er mikil þörf á öflugum málsvara og lifandi og fjölbreyttu starfi. Sótt var um styrk úr Miðborgarsjóði til að fjármagna eftirtalinn verkefni sem flest tengjast Spennistöðinni, félags- og menningarmiðstöð miðborgarinnar:

Umsjón í Spennistöð. Í Spennistöðinni, félags- og menningarmiðstöð miðborgarinnar eru fjölmörg verkefni sem falla utan hefðbundins reksturs félagsmiðstöðvar og skólastarfs. Enginn starfsmaður hefur verið ráðinn til að sinna þessu hlutverki og hafa þessi verk verið unnin í sjálboðavinnu s.l. þrjú ár.
Heil brú. Verkefni sem hófst 2016 og farið var í til að bæta hverfisandann og samheldnina í miðborginni með því að halda smiðjur og málþing á laugardögum í Spennistöðinni.
Hverfisgöngur. Hverfisgöngur eru samráð borgaryfirvalda við íbúa til að bæta umhverfi þeirra. Hverfisgöngur hófust síðsumars að frumkvæði ÍMR.
Átthagafélög innflytjenda. Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir að félagsmiðstöð félaga innflytjenda yrði starfrækt í Spennistöðinni á sunnudögum, öllum áhugasömum opin.
Þóknun fyrir fundarsetu. Stjórnarfólk ÍMR situr nú 50-60 fundi árlega í ýmsum starfshópum og ráðum Reykjavíkurborgar sem er u.þ.b. fimm sinnum meira en í flestum íbúasamtökum. Oft eru fulltrúar ÍMR eina fólkið sem ekki fær neina þóknun fyrir fundarsetuna.
Sótt var um starfsstyrk til þriggja ára 5.500.000 á ári til að sinna þessum verkefnum. (Greinargerð með umsókn ÍMR í viðhengi)

Afgreiðsla stjórnar Miðborgarsjóðs
Stjórn Miðborgarsjóðs lagði til að veittur yrði styrkur til eins árs uppá 1.000.000 kr til til að styðja við Heila Brú, Hverfisgöngur og Átthagafélög innflytjenda. Styrkveitingu til annara verkefna var hafnað.
(Í viðhengi eru úthlutanir sjóðsins)

Fjárhagsáætlun ÍMR fyrir þessi þrjú verkefni er upp á tæpar fjórar milljónir þannig að það er ljóst að verkefnin geta hvorki lifað né dáið fyrir styrkupphæðina. Áætlunin er þó síst ofreiknuð og gerir ráð fyrir miklu sjálboðaliðastarfi í ofanálag. Stjórn ÍMR lítur svo á að ef hún þiggur þennan styrk sé hún að skuldbinda samtökin til að framkvæma öll þessi verkefni. Samtök eins og ÍMR eiga enga sjóði og hafa takmarkaða getu til að verða sér út um fjármagn og geta því ekki lagt út í undirfjármögnuð verkefni upp á von og óvon. Því er þessi styrkur afþakkaður og framtíð þessara verkefna því óviss.

Tveimur liðum í umsókn ÍMR er hafnað, launakostnaði vegna umsjónar og eftirlits með ýmsri starfsemi í Spennistöðinni sem ekki fellur undir hefðbundið starf skóla og félagsmiðstöðvar og þóknun til stjórnarfólks og félaga ÍMR sem sitja fundi í ýmsum starfshópum og ráðum Reykjavíkurborgar. Hvað varðar Spennistöðina þá hafa þessi störf verið unnin í sjálfboðavinnu í þrjú ár og miðað við þann vinnuhraða sem verið hefur hjá borgaryfirvöldum í málefnum Spennistöðvarinnar gerum við okkur litlar vonir um að það breytist á næstunni.

Félagar í stjórn ÍMR sitja um 60 fundi á ári í starfshópum og nefndum að beiðni borgaryfirvalda og embættismanna borgarinnar. Þó Íbúasamtökunum sé mikið í mun að fá að taka þátt í ákvörðunarferli um framtíð og skipulag hverfisins þá er um að ræða sanngirniskröfu um að fólki sé bætt það vinnutap sem það verður fyrir en allir þessir fundir fara fram á vinnutíma venjulegs fólks. Ekki er um stórar upphæðir að ræða því upphæðin sem sótt var um er litlu hærri en ársþóknun eins félaga í hverfisráði fyrir að mæta á einn fund í mánuði.

Lokaorð
Stjórn ÍMR lítur svo á að með úthlutun sinni til Íbúasamtaka Miðborgar hafi Stjórn Miðborgarsjóðs ekki haft það að markmiði að stuðla að fjölbreytni í miðborginni og eflingu hennar sem íbúabyggðar sem henni er þó skylt samkvæmt reglum sjóðsins. Úthlutanir sjóðsins miða ekki að því að efla miðborgina sem íbúabyggð heldur þvert á móti, megnið af sjóðsfénu fer til að styrkja kaupmennsku og rekstur í miðborginni og verður það ekki síst augljóst með nýjasta útspili sjóðsins sem er að eyða fimm milljónum af þrjátíu í jólaverkefni, sem mun gagnast íbúunum að mjög takmörkuðu leyti. Í fimm leiðarljósum um stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum miðborgarinnar er hvergi minnst á íbúa og virðist augljóst að starf Miðborgarstjórnar er í sama anda.

F.h. Íbúasamtaka Miðborgar
Benóný Ægisson formaður

Samrit sent borgarfulltrúum og fjölmiðlum

Fylgigögn:
Greinargerð með umsókn ÍMR
Úthlutun úr Miðborgarsjóði í nóvember 2017

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is