ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Ályktun vegna vanhirtra húsa

Sent til byggingafulltrúans í Reykjavík, heilbrigðiseftirlits Reykavíkurborgar, borgarfulltrúa í Reykjavík, þingmanna Reykjavíkurkjördæmis norður og til fjölmiðla

Ályktun ÍMR: Í miðborg Reykjavíkur eru tugir húsa sem ekki eru nýtt og hafa sum þeirra staðið auð og vanrækt í áratugi. Ástand margra þessara húsa er með þeim hætti að af þeim stafar hætta, umhverfi þeirra er subbulegt og óheilsusamlegt og ítrekað hefur kviknað í þeim og hefur það sett nærliggjandi byggð í hættu. Ástæður fyrir vanrækslu eigenda þessara húsa eru sjálfsagt margvíslegar en núverandi ástand er óþolandi fyrir nágranna þessara yfirgefnu húsa, auk þess sem komið er í veg fyrir að þau nýtist til íbúðar eða fyrir atvinnustarfsemi og einnig eru sum þeirra aldursfriðuð. Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur skorar á byggingafulltrúa og heilbrigðiseftirlit að nota þau verkfæri sem embættin hafa til að koma í veg fyrir þetta háttalag og á borgarfulltrúa og þingmenn Reykjavíkur norður að beita sér fyrir því að lög og reglugerðir verði gerðar svo skýrar að húseigendur komist ekki upp með að láta hús sín standa auð og vanrækt um langa hríð.

Greinargerð:
Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur hefur á undanförnum fundum rætt talsvert ástand nokkurra húsa í miðborginni sem teljast verður ámælisvert vegna vanhirðu. Með þessu bréfi fylgja upplýsingar um nokkur hús sem telja verður í slæmu ástandi og myndir af þeim. Við gerum okkur ljóst að takmörk eru fyrir því hversu langt borgaryfirvöld geta gengið í að gera athugasemdir við viðhald og ástand húsa í einkaeigu. Gæta verður meðalhófs í þessu eins og öðru. Stjórn íbúasamtakanna er þó þeirrar skoðunar að viðhaldsskortur á mörgum byggingum sé orðinn það alvarlegur að hætta getur stafað af.

Í a-lið 1.gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að markmið þeirra laga sé að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi m.a. með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt.

X. kafli laganna fjallar um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög. Þar er m.a. að finna 56.gr. laganna sem fjallar sérstaklega um aðgerðir sem sveitarfélög geta beitt til að knýja fram úrbætur. Í þessari lagagrein segir í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er.

Í 2. mgr. kemur fram að byggingarfulltrúa sé heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 kr. á dag til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögum um mannvirki og byggingarreglugerð.

Í 3. mgr. kemur fram að byggingarfulltrúi geti látið vinna verk sem hafa lagt fyrir að unnið skyldi á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið.

Í 4. mgr. segir að dagsektir og kostnað skv. 2. og 3. mgr. megi innheimta með fjárnámi og hefur sveitarfélag lögveð fyrir kröfu sinni í viðkomandi fasteign. Ekki þarf annað en að skoða meðfylgjandi myndir til að sjá að við þetta ástand verður ekki lengur unað.

Stjórn íbúasamtakanna skorar á borgaryfirvöld að ganga í þetta mál sem allra fyrst og beita þeim úrræðum sem lög heimila til lausnar á þessu vandamáli. Ekki nóg með að ástand umræddra húsa sé til mikilla lýta heldur fylgir þeim hætta fyrir nágranna þar á meðal brunahætta.

Hér er ályktunin með mynddæmum

F.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur
Benóný Ægisson formaður


Bréf sent 15. september 2020

Byggingarfulltrúinn í Rvík
Nikulás Úlfar Másson

Samkvæmt 1.mgr.5.gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er stjórnvöldum skylt að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál, sé þess óskað.

Íbúasamtök miðborgar Reykjavíkur sendu byggingarfulltrúa Reykjavíkur fyrirspurn nýlega varðandi afskipti embættisins af vanhirtum húsum í miðborg Reykjavíkur. Eftirfarandi svar barst samtökunum 8. október sl:

“Þórsgata 6: Sent bréf 28.2.2020 með áskorun um að bæta úr viðhaldi húss og lóðar. Mun verða ítrekað.

Klapparstígur 19 og Veghúsastígur 1: Sent bréf vegna skorts á viðhaldi 10.9.2020. HER ætlaði að skoða og bregðast við rusli á lóð.

Vatnsstígur 4 og Laugavegur 33a: Er langt komið í deiliskipulagsferli þar sem gert er ráð fyrir að rífa húsin og byggja ný í stað þeirra. Ekki ástæða til að aðhafast á meðan.

Óðinsgata 14a og b: Sent bréf vegna vanhirðu 9.4.2018. Mun verða ítrekað. HER ætlaði að skoða og bregðast við rusli á lóð.

Njarðargata 35: Var skoðað 8.9.2020. Ekki ástæða til aðgerða. HER var með í vinnslu 2008 og ætlaði að skoða aftur og bregðast við rusli á lóð.

Skólavörðustígur 36: Sent bréf 5.7.2019 um að koma húsinu í ásættanlegt horf þrátt fyrir áform um endurbyggingu þess. Því var sinnt og húsinu lokað. Byggingarleyfi vegna viðbyggingar gefið út 25.8.2020. Skoðað aftur 8.9.2020. Húsið rifið í óleyfi 9.9.2020. Þingholtsstræti 29a: Skoðað 8.9.2020. Ekki búið í húsinu, engin ástæða til frekari aðgerða.”

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur óskar hér með eftir að fá sent afrit af ofangreindum fjórum bréfum sem eru upptalin hér fyrir ofan. Talað er um fimm bréf því við gefum okkur að búið sé að ítreka erindið varðandi Óðinsgötu 14a og b).

Kær kveðja

F.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur
Benóný Ægisson formaður

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is