ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Heil brú í Miðbænum

Í nóvember 2014 var félagsmiðstöðin Spennistöðin opnuð í miðborginni. Hún er í gamalli spennistöð Orkuveitunnar sem stendur við hlið Austurbæjarskóla og er fyrsta félagsmiðstöð miðbæjarins sem innréttuð er sérstaklega til þessa brúks þó svo félagsmiðstöðvar hafi verið byggðar í öðrum hverfum í meira en 40 ár. Það kostaði áralanga baráttu íbúa hverfisins að fá þessa félagsmiðstöð og því mikil hamingja með hana og hún er vel nýtt. Spennistöðin er ólík öðrum félagsmiðstöðvum að því leyti að hún er ekki eingöngu ætluð unglingum heldur er hún líka félags og menningarmiðstöð allra íbúa miðborgarinnar og fjölnotarými fyrir Austurbæjarskóla. Húsráð stýrir Spennistöðinni og er það skipað fulltrúum frá öllum notendum hennar, Íbúasamtökum Miðborgar, Austurbæjarskóla, foreldrafélagi skólans, frístundamiðstöðinni Kampi, félagsmiðstöðinni 100og1, unglingum og ungmennum.

Verkefninu Heil brú er hleypt af stokkunum til að tengja saman alla notendur Spennistöðvarinnar og eru einkunnarorð þess: Sköpum, ræðum og leikum okkur saman. Markmiðið með verkefninu er að bæta hverfisandann og samheldnina í hverfinu og er það er gert með því að halda smiðjur og málþing annan hvern laugardag í Spennistöðinni og þær eru ætlaðar öllum íbúum í miðborginni, óháð aldri, uppruna og skoðunum.  Við hefjum leik með því að leika okkur saman laugardaginn 10. september kl. 13-15 en þá munu nemar á 3. ári í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands stjórna leikjum. Þetta er eitthvað fyrir alla, konur og kalla, krakka með hár og kalla með skalla; ef veður er gott verðum við úti en ef það er vont inni í hinni rúmgóðu Spennistöð.  Boðið verður upp á kaffi og saft og eru íbúar hvattir til að mæta með eitthvað smáræði ef þeir hafa tök á því.

Laugardaginn 24. september ætlum við að ræða sambýlið við ferðaþjónustuna á málþingi um miðborgina þar sem íbúarnir hafa orðið en einnig fáum við góða gesti. Þann 8. október mun blúsfrömuðurinn Halldór Bragason, íbúi og fyrrum nemendi í Austurbæjarskóla leiða blússmiðju þar sem fólk, fullorðnir,ungmenni og börn, mæta með hljóðfærin sín og blúsa eins og þau mögulega getur. Ýmsar aðrar smiðjur og uppákomur eru svo á döfinni annan hvern laugadag til áramóta.

Forvarnarsjóður Reykjavíkurborgar styrkti verkefnið og smiðjurnar verða öllum opnar og að kostnaðarlausu.  Ef íbúar í miðbænum eru með hugmynd að smiðju þar sem við getum rætt, skapað og leikið okkur og öll fjölskyldan er velkomin þá sendið okkur endilega skilaboð í gegnum FB síðuna „Spennistöðin” eða á netfang Íbúasamtakanna midbaerinn@midbaerinn.is.

 

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is