ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Íbúasamtök ræða málin

Þriðjudaginn 28. mars héldu stjórnir íbúasamtaka þriggja hverfa fund í Spennistöðinni, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar, þar sem rædd voru sameiginleg hagsmunamál hverfanna. Þetta voru Íbúasamtök Miðborgar, Íbúasamtök Vesturbæjar og Íbúasamtök 3. hverfis, en því tilheyra Norðurmýri, Holt og Hlíðar. Hverfin þrjú ná yfir svæðið frá Seltjarnarnesi að Kringlumýrarbraut, þau deila þjónustu- og frístundamiðstöð og heildaríbúafjöldi þeirra um 35 þúsund. Í hverfunum er elsta byggð borgarinnar og elstu úthverfin. Þetta eru gróin hverfi sem eru eftirsóknarverð að búa í vegna nálægðar við þjónustu, menningu, afþreyingu og sögu en stjórnir íbúasamtakanna þriggja voru sammála um bæta mætti umferðaröryggi, gera götur vistvænni, minnka mengun frá umferð, hætta hótelbyggingum og koma í veg fyrir að meira íbúðarhúsnæði og húsnæði fyrir þjónustu við íbúa verði lagt undir ferðaþjónustu.

Öruggari umferð
Mikil umferð er í gegnum hverfin og fjölfarnar umferðaðargötur liggja í gegnum þau, Hringbraut, Miklabraut, Mýrargata, Geirsgata, Sæbraut og Bústaðavegur til austurs og vesturs en Hofsvallagata, Ægisgata, Suðurgata, Lækjargata, Snorrabraut, Langahlíð og Kringlumýrarbraut til norðurs og suðurs. Algengt er að börn og unglingar þurfi að fara yfir þessar umferðaræðar til að komast í skóla, dans- eða tónlistarskóla eða til að stunda íþróttir eða frístundastarf. Huga þarf að því að gera vegferð þeirra öruggari með göngubrúm, gönguljósum eða með því að leggja götur í stokk. Þó mikið átak hafi verið gert í lagningu hjólastíga í borginni á undanförnum árum þá hefur áherslan ekki verið á það að börn geti hjólað í skólann og þarf að gera átak í þeim málum.

Minni mengun
Bílaumferðinni í gegnum hverfin fylgir mikil mengun, bæði hljóð og loftmengun. Að mati þeirra sem búa við helstu umferðargötur er loftmengun orðin stórhættuleg og þyrfti að standa mun betur að mengunarmælingum en nú er gert. Leita þarf leiða til að takmarka bílaumferð, styrkja almenningssamgöngur, lækka umferðarhraða og minnka notkun nagladekkja en einnig mætti minnka svifryk og binda það með því að þvo og spúla götur með vatni mun oftar en nú er gert.

Hætta að byggja hótel
Nóg er komið af hótelbyggingum. Stórkarlalegar byggingar rísa nú um öll hverfin með miklu jarðraski, auknu skuggavarpi, ónæði, hávaða, truflun á umferð og skemmdum á nærliggjandi húsum og er íbúabyggð í hættu vegna þeirra. Taumlaus bygging hótela og því að íbúðahúsnæði er breytt í gistiheimili hefur orsakað mikið ójafnvægi í byggðinni. Verð á húsnæði hefur hækkað svo mikið að ungt fólk með börn hefur ekki lengur efni á að kaupa eða leigja húsnæði og afleiðing þess verður óhjákvæmilega verri þjónusta við börn og barnafjölskyldur. Þessu er farið að sjá stað með fækkun skólabarna og lokun leikskóladeilda og veldur það lítilli endurnýjun í íbúabyggðinni. Áhersla borgaryfirvalda ætti að vera á því að bæta þjónustu við íbúa og styrkja innviði hverfanna og undanþáguákvæði um að hótel megi byggja við allar aðalgötur ætti tafarlaust að nema úr gildi í miðborginni og nágrenni.

Betri íbúahverfi
Vesturhluti Reykjavíkurborgar, sem hverfin þrjú tilheyra er eftirsóttasti staður landsins til búsetu og þar sem hann er þéttbýll og með alla mikilvægustu þjónustustarfsemi er hann mjög hagstæð rekstrareining. Því er það hagur borgarinnar að stuðla að því að að hverfin séu vistvæn og góð til búsetu. Fundarmenn höfðu m.a. áhuga á að fjölga vistgötum í hverfunum þar sem ökuhraði yrði lækkaður verulega og gangandi umferð hefði forgang. Í hverfunum er þétt byggð og fátt um opin svæði og því mikilvægt að börn hverfisins geti leikið sér örugg á götunum.

 

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is