ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Gönguferð um hverfið mitt

Ég fór í gönguferð um hverfið mitt fyrir nokkrum dögum. Ég var rétt komin nokkrar húslengdir, áleiðis að næsta horni, þegar ég þurfti að víkja mér undan reiðum manni sem sló til mín með hnefanum og reyndi að hrifsa af mér myndavélina mína. Og þegar ég beygði fyrir horn og inn í næstu götu sveif að mér annar samborgari minn og hellti úr skálum reiði sinnar yfir mig vegna þessarar sömu myndavélar, sem þó er ósköp venjuleg – alveg eins og þær sem ferðamennirnir brúka. Slíkt líkamlegt áreiti gagnvart mér í mínu nærumhverfi heyrir þó sem betur fer til undantekninga. En bara vegna þess að ég hef alla jafna vit á því að fara ekki út á tilteknum tímum sólarhringsins. Rétt eins og allflestir grannar mínir. Ég bý í 101. Þarf tæpast að nefna það. Í póstfangi sem orðið er að samnefnara fyrir samtímann á Íslandi; póstfangi sem bæði er búið að skrifa um bók og búa til kvikmynd um.

Vegna þess hvar ég bý hef ég vanist tilhugsuninni um það að dópsali noti tröppurnar hjá mér (bakatil í afgirtum garði) til að selja vöru sína. Ég heyrði í sölumanninum fyrir utan gluggann minn, í u.þ.b. metra fjarlægð og lét sem ekkert væri til að baka mér ekki vandræði. Mér fannst einna helst forvitnilegt hvert gangverðið á gramminu væri. Ég kippi mér ekki upp við það þótt fólk kasti af sér vatni yfir blómabeðin mín því rigningin skolar því í burtu. Varð reyndar um að sjá virðulega jafnöldru mína ganga örna sinna í garðinum hjá mér á meðan vinkona hennar stóð hjá til að halda á veskinu hennar. En ég tíni upp sprautunálar, bjórdósir, glös, smokka, sígarettustubba, matarleifar, bréfarusl og fleira af lóðinni eins og ekkert sé – spúla ælupollana í burtu. Ég er orðin svo sjóuð að ég lít varla undan við innkaupin á laugardagsmorgnum þegar ég sé fuglana gogga í álíka ókræsilega polla á götunum. Ég hef vaknað við stunur velklæddrar konu sem braust inn í geymsluna mína og dó þar ölvunardauða, og skemmt mér yfir tilhugsuninni um það hvernig upplitið á henni hafi verið þegar lögreglan skilaði handtöskunni sem hún gleymdi daginn eftir. Mér finnst eðlilegt að læsa hliðinu að garðinum mínum og álasa sjálfri mér fyrir að hafa ekki endurnýjað lásinn eftir að hann bilaði. Reiði bærði þó á sér þegar dimitterandi menntaskólanemar spörkuðu þannig í nýmálaðar þakrennurnar á mínu virðulega hundrað ára gamla húsi að þær eru ónýtar. Sömuleiðis varð ég ill – og reyndar líka skelkuð – þegar ég stóð í eldhúsinu um miðnæturbilið og horfði í vantrú á hóp jakkafataklæddra manna taka upp kústskaft fyrir utan og hlaupa af stað með það rétt eins og um burtreiðar á tímum Hróa hattar væri að ræða og reka síðan í gegnum rúðuna á borðstofunni minni. Sem var reyndar líka hundrað ára gömul og úr rándýru handblásnu gleri. Og ég varð slegin þegar sonur minn grillaði hamborgara fyrir vini sína í garðinum á blíðviðrisdegi í fyrrasumar. Á meðan foreldrarnir brugðu sér í kvöldgöngu í kringum tjörnina bar að fólk sem vildi komast í "partíið". Ungmennin lokuðu hliðinu inn í garðinn en óboðnu gestirnir létu ekki segjast, spörkuðu því upp (enn einni hundrað ára gamalli völundarsmíði úr járni sem þurfti að gera við) kýldu unga stúlku í andlitið og pilt í brjóstið. Lögreglan kom reyndar tilkölluð en þótti ekki taka því að skrifa skýrslu því ólátabelgirnir höfðu þegar skallað mann og nefbrotið á Skólavörðustíg sem vildi ekki leyfa þeim að kyssa kærustuna sína. Það þótti m.ö.o. nóg á ófriðarseggina að sinni. Þau málalok unnu þó ekki á óróa minnar fjölskyldu.

Undanfarið ár hef ég tekið því – að því er mér finnst sjálfri – með aðdáunarverðri rósemd þótt þrisvar sinnum hafi verið ráðist á bílinn minn með hnífi og einu sinni brotin í honum rúða. Þrjár heimsóknir á sprautuverkstæði og ein vegna rúðunnar á rúmu ári eru bara hversdagsviðburðir í mínu hverfi segir lögreglan, þetta er víst alltaf að gerast. Og auðvitað hringi ég bara í lögregluna til að fá skýrsluna fyrir tryggingarfélagið því lögreglan gerir ekkert í málum á borð við þessi – það er víst alveg tilgangslaust. Mér finnst óhugsandi annað en að vera sjálfsábyrgðarlaus með bílinn minn, og lét mig hafa það að punga út fé fyrir hellulögn á stóran hluta flatarinnar í annars litlum garðinum mínum til að koma bílnum í skjól um helgar. Það er nefnilega svo þreytandi fyrir vinnandi fólk að vera alltaf með bílinn sinn á verkstæði. Kostnaður af skemmdarverkum á mínum eigum í miðborginni undanfarið ár nemur um líklega um tólf til fjórtán hundruð þúsundum – hundrað þúsundum á mánuði. En ég er vel tryggð og reyni að velta mér ekki of mikið upp úr veseninu.

Ofangreint er þó bara mín persónulega reynsla, að sjálfsögðu. Reynsla eins íbúa, í einu húsi við eina elstu götu borgarinnar, sem kennd er við sjálfan landnámsmanninn Ingólf. Það stælir þó í mér bakuggann þegar ég heyri að ég er ekki ein um reynslu af þessu tagi. Nágrannakona mín ein spurði mig á förnum vegi í liðinni viku hvort ég svæfi við opinn glugga. Ég sagðist gera það virka daga en ekki um helgar. "Ég líka", svaraði hún, eins og það væri sjálfsagt mál að fá ekki ferskt loft um helgar. Við ræddum líka um notkun á eyrnatöppum, sem ég get t.d. ekki notað, en hún segir reynast sér mjög vel. Eiginlega alltof vel, því hún hefur tvisvar lent í því að ókunnir menn spenni upp hjá henni gluggana og komi óboðnir inn til hennar án þess að hún heyri til þeirra – annan fann hún í rúminu sínu. Ég velti því fyrir mér hvort hún myndi heyra í reykskynjara ef kviknaði í hjá henni, en lét það vera að spyrja. Ég las líka í Morgunblaðinu sl. fimmtudag að granni minn neðar úr götunni hefði verið kýldur þegar hann spurði mann sem var að pissa á húsið hans hvað hann væri að gera.

Svo heyrði ég í enn annarri grannkonu minni í hverfinu 101 sem býr á vetrum í miðborg Parísar en á sumrin í bakhúsi við Laugaveginn. Hún sagði mér að sjálf milljónaborg hins ljúfa lífs væri hreint og beint friðsæl miðað við Reykjavík. Samt skemmtir fólk sér víst ágætlega í París – þótt ótrúlegt megi virðast. Fyrir fimm eða sex árum var, að hennar sögn, bannað í París að leika tónlist eftir miðnætti á krám og klúbbum í allri borginni. "Meira að segja á einum frægasta djassklúbbi Parísarborgar New Morning, er hætt að spila klukkan tólf. Þeir sem vilja skemmta sér fram eftir nóttu taka leigubíla á næturklúbba", útskýrði hún. Klúbbarnir eru þar sem þeir trufla engan, hljóðeinangraðir og þannig frá þeim gengið að af þeim er hvorki hávaðamengun né umhverfisspjöll. Parísarbúar sömdu sig að þessum nýju reglum án sögulegra átaka. "Fólk fer bara fyrr út á lífið. Íbúar í París láta nefnilega ekki vaða yfir sig eins og hér, þar sem þeir eru eins og hvert annað aukaatriði. Í flestum löndum væri það sem dynur á fólki hér í miðborginni álitið vera brot á mannréttindum og friðhelgi heimilisins", sagði hún. Ég fékk líka staðfestingu frá íbúa í miðborg Berlínar um að þar giltu áþekkar reglur; barir í miðborginni loka skömmu eftir miðnætti og þá taka við næturklúbbar sem staðsettir eru utan íbúabyggðar. Og til að klykkja út með enn einni sögu af langþreyttu fólki í 101; ég frétti af rótgrónum miðborgaríbúum – í þriðja ættlið – sem velta því fyrir sér að færa gamla, fallega og nýuppgerða fjölskylduhúsið af grunninum sem það hefur staðið á í rösk hundrað ár, í rólegra hverfi og fá síðan byggingarverktaka til að byggja atvinnuhúsnæði á miðborgarlóðinni fyrir sig. Reyndar hef ég heyrt af tveimur fjölskyldum sem eru með áform af þessu tagi.

Þegar ég flutti í hverfið mitt fyrir tíu árum síðan var ég mun næmari fyrir umhverfi mínu. Ég tók mannlífið meira inn á mig og hélt til að mynda að það væri verið að nauðga eða misþyrma fólki sem öskraði. Frá þessum fyrstu árum minnist ég sérstaklega barnungrar stúlku sem sat grátandi í garðinum hjá mér á sunnudagsmorgni með sundurskornar iljarnar eftir glerbrotin á götunni. Ég bauð henni inn til að þrífa sig af því ég vorkenndi henni, hringdi síðan fyrir hana svo hún kæmist heim. Nú er ég orðin svo harðbrjósta að "venjuleg" öskur og læti hreyfa ekki við mér. Ég sef meira að segja þokkalega þótt glösin dynji með brothljóðum fyrir utan (lokaðan) gluggann minn.

Og því skyldi ég þá vera að tíunda þetta allt saman opinberlega núna fyrst umhverfi heimilis míns í miðborginni hefur alltaf verið dálítið frekt til fjörsins? Það er vegna þess að undanfarna mánuði er eins það sem áður virtist í mínum augum "einungis" þreytandi áreiti sé orðið að hreinni og beinni óöld. Í húsnæði þar sem áður voru kaffihús er lokuðu um leið og verslanir, eða spiluðu tónlist á "þolanlegum" hljóðstyrk á meðan fólk sat yfir ölkrús fram eftir kvöldi og jafnvel nóttu, eru nú næturklúbbar sem varla láta á sér kræla fyrr en eftir miðnætti. En þá með slíkum látum að dúnninn dúar taktfast í koddanum mínum til hálfsex á morgnanna. Í u.þ.b. fimmtíu til hundrað metra fjarlægð við heimili mitt hafa sl. tíu ár verið starfrækt fjölmörg kaffihús, krár og barir en einungis örfáir þessara veitingastaða hafa verið til vandræða allan þann tíma, fyrr en nú. Fram að þessu virtist sem veitingamenn reyndu að stilla hávaðanum í hóf, gæta þess að viðskiptavinirnir væru innandyra og að enginn færi út með áfengi. Og maður virti viljann fyrir verkið. Upp á síðkastið virðist hins vegar sem veitingamenn sjái ekki tilganginn í því að halda friðinn við nágranna sína – sem borgaryfirvöld, lögregla og aðrir eftirlitsaðilar veiti ekki lengur það aðhald að menn láti segjast. Þannig má af mínu heimili með léttum leik greina tónlistarstefnur þriggja skemmtistaða – en einungis á þeim tíma þar sem flestir aðrir en næturhrafnarnir á djamminu sofa svefni hinna réttlátu; frá hálfeitt til hálfsex aðfaranætur laugardaga og sunnudaga. Og stundum mánudaga eins og um verslunarmannahelgi og hvítasunnu, og reyndar í sérlega ýktu formi á dögum á borð við síðasta vetrardag, sautjánda júní, þegar Gay Pride stendur yfir og á Menningarnótt. Um páska, jól og áramót, og svo auðvitað líka þegar nýtt kreditkortatímabil hefst, þegar skólar byrja og þegar þeim lýkur. Þegar fólk fær útborgað, jólahlaðborðin hefjast, þorrablótin, árshátíðavertíðin o.sfrv. o.s.frv. Eða m.ö.o. nánast allar helgar nema þegar veður er með afbrigðum vont eða fólk timbrað og blankt eftir fyrrnefnd stórtilefni.

Svo virðist sem reykingabannið hafi gert útslagið. Stór hluti gesta öldurhúsanna skemmtir sér nú úti af því þar má reykja. Af hverju þróunin hefur orðið eins og raun ber vitni er þó ekki alveg ljóst, því eins og ýmsir hafa bent á á þá ríkir reykingabannið allan sólarhringinn en veldur ekki vandræðum fyrr en á nóttunni. Það virðist deginum ljósara að þótt ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja að reykingabannið væri haldið innandyra, þá hafa engar ráðstafanir verið gerðar til að mæta afleiðingunum af banninu utandyra. Þannig leiðir bannið t.d. til þess að ekki einungis reykingafólk drekkur úti undir berum himni, heldur slást í þann hóp fjölmargir sem ekki reykja – en drekka og láta ýmsum illum látum. Afmarkaðir reitir, eða jafnvel svalir, fyrir framan eða aftan staði á borð við Sirkus, Boston, Prikið, Q-bar og Sólon, eru stappaðir af fólki sem hegðar sér alveg eins þar og inni á stöðunum. Samt hefur meiningin með reykingabanninu varla verið sú að stækka umráðasvæði skemmtistaðanna og færa hluta þeirra út undir bert loft yfir blánóttina? Í áfengislögum er bannað að "bera með sér áfengi út af veitingastað". Meira að segja þeir staðir sem hafa sérstakt leyfi til að veita áfengi á skilgreindum svæðum utandyra mega ekki gera það eftir klukkan tíu á kvöldin. Er nema von að fólk spyrji af hverju veitingamönnum er leyft að brjóta áfengislög til að framfylgja lögum um reykingarbann? Kannski er það þannig á Íslandi að ef nógu margir brjóta lögin þá þurfi lögreglan ekki að bregðast við því, gefist einfaldlega upp fyrir ofureflinu. Með sömu rökum ættu sem flestir að keyra of hratt því þá hættir kannski lögreglan að sekta fyrir hraðakstur!

Þegar ég kvarta yfir tillitsleysi fólks í garð okkar miðborgarbúa, reka ótrúlega margir upp stór augu. "En þú valdir að búa þarna!" segir fólk "við hverju bjóstu eiginlega?" Það er eins og ekkert samhengi sé á milli hugmynda almennings um miðborgina að nóttu og að degi. Enda má til sanns vegar færa að borgarbúar nota miðborgina helst til að skemmta sér. Verslun og þjónusta hefur að mestu færst í aðrar miðjur – Kringluna og Smáralind. Tengsl hins almenna höfuðborgarbúa við miðborgina eru ekki lengur eins og mín, í gegnum hversdaglegar erindagjörðir að degi til. Fólk sem kann sig í sínum Kringlum og Smáralindum á daginn – og hugsanlega á Laugaveginum á góðviðrisdögum – sleppir gjörsamlega fram af sér beislinu í bænum á nóttunni og brýtur allar reglur um velsæmi og tillitssemi. Er óalandi og óferjandi. Mér er sem ég sæi það þola það sem ég bý við í sínum hverfum.

En þrátt fyrir þetta allt saman er staðreyndin samt sú að húsnæðisverð í póstnúmerinu 101 er eitt hið hæsta á landinu. Svo einhverjir hljóta að eiga sér draum um gott líf í mínu hverfi. Sá draumur verður til vegna þess að þar er að finna fallegustu götur og hús borgarinnar og svæðið er líklega það eina á landinu sem minnir á búsetu í stórborg. Ástæðurnar fyrir ásókn í búsetu í 101 eru í takti við strauma samtímans erlendis. Í 101 er til að mynda mun auðveldara en í öðrum hverfum að komast af án þess að eiga bíl. Íbúar komast fótgangandi í þjónustu af öllu tagi, til skósmiðs, í bakarí, fiskbúð, ostabúð, heilsubúð, lágvöruverðsverslun, vínbúð, banka og heilsugæslu. Einnig er hægt um vik hvað menningarneyslu varðar; myndlistarsýningar, leikhús, ópera, tónleikar og bíósalir eru í göngufjarlægð frá heimilum auk þess sem frábær útivistarsvæði á borð við Hljómskálagarðinn, höfnina, Gróttu og Laugarnesið eru á næsta leiti.

Sá lífsstíll sem íbúum 101 stendur til boða höfðar því til margra – er meira að segja umhverfisvænn. Hann höfðar ekki síst til þeirra sem hafa búið við áþekk skilyrði erlendis, þeirra sem ekki vilja ferðast langar leiðir til vinnu eða í þjónustu, þeirra sem finnst miðborgarkjarni áhugaverðara umhverfi en svefnhverfin. Þá liggja einnig menningarsöguleg rök að baki áhuga margra á miðborginni; sú staðreynd að þar er til staðar nokkuð söguleg hefð í borgarþróun er mótast af norræni byggingarsögu, sem er lítt áberandi í öðrum borgarhlutum. Margir íbúar miðborgarinnar hafa lagt mikið af mörkum til að viðhalda menningarhefð landsmanna, ekki síst þeir sem búa í sögufrægum húsum og hafa lagt út ómældan kostnað og fyrirhöfn við endurnýjun þeirra – öllum borgarbúum til sóma. Sú uppbygging sem í slíkum gjörðum felst fyrir þá ásýnd sem allir lofa á tyllidögum, er fótum troðin þegar ölæðið rennur á fólk eftir miðnættið.

Sumir segja að dýrðin í næturlífi miðborgarinnar sé verðmætt aðdráttarafl, ekki síst fyrir útlendinga sem finnist frábært að geta á þessum stutta spotta frá Bankastræti upp að Klapparstíg fundið tugi skemmtistaða af öllu tagi sem opnir eru fram í morgunsárið. Þetta sé einstakt. Ég er viss um að það er satt. En ég velti því fyrir mér hvort ekki séu til ferðamenn sem fá óbeit á þessum lifnaði. Og ég velti því líka fyrir mér hvort þetta ástand sé það sem við kjósum að beita til að gæða miðborgina "lífi", eða bera hróður okkar til umheimsins.

Myndirnar sem fylgja þessum skrifum voru teknar í gönguferðinni um hverfið mitt á Menningarnótt. Í gönguferðinni þar sem myndavélin fór svo óskaplega fyrir brjóstið á miðborgargestum að ég tók flestar myndirnar undan treflinum mínum til að verða ekki lamin. Þeirri sömu Menningarnótt er menn voru almennt svo ánægðir með; þar sem allt fór "stórslysalaust fram", eins og lögreglustjóri lýsti því. Hann viðurkenndi reyndar í Morgunblaðinu tveimur dögum seinna að "töluvert mikið [hafi verið] um ölvun og eitthvað um slagsmál og pústra og annað í þeim dúr." Og svo hafi líka verið "nokkuð um skemmdarverk." En eftir stendur að svo virðist sem gríðarleg ölvun hundruða ef ekki þúsunda manna fram undir morgun, hávaði, subbuskapur og fjölmargar kvartanir til lögreglu sé metið sem viðunandi ástand í hjarta höfuðborgar lands sem ekki telur nema um þrjúhundruð þúsund sálir. Að ef hátíð líður hjá án þess að fólk verði fyrir stórfelldum líkamsárásum og enginn lætur lífið, megi vel við una.

Ég tek auðvitað undir þau orð lögreglustjórans að það að efla löggæsluna um helgar "dugi ekki eitt og sér til þess að ná góðum tökum á þeim vanda sem við er að etja". Þau vekja með mér von um að til þess bær yfirvöld sjái til þess að mannasiðir nái aftur fótfestu á Íslandi. En er lögreglustjóri talar um mikilvægi sýnileika og gagnsemi gönguhópa, minnkar trú mín á gjörðir hans. Mér finnst nefnilega umhugsunarvert að vaskur – og mjög svo sýnilegur – gönguhópur laganna varða sem ég gekk í humátt á eftir á Laugaveginum á Menningarnótt, þegar klukkan var rétt að verða sex um morguninn, hafði hvorki afskipti af drukknu fólki sem lá þar afvelta, fólki sem braut glös við nefið á þeim eftir að hafa teygað úr þeim síðasta sopann, né af þeim sem migu utan í hús. Sömuleiðis finnst mér umhugsunarvert að þegar ég vatt mér að lögreglumanni í bíl við hornið á minni götu í ærandi hávaðanum frá skemmtistöðunum og spurði hann hvort það mætti hafa svona hátt um miðja nótt, þá yppti hann bara öxlum og sagði "Ég veit það ekki". Verst þykir mér þó að þótt ég hafi hringt tvisvar í lögregluna þessa umræddu nótt menningar í Reykjavík vegna háreystinnar og látanna og lögreglan hafi lofað að láta lækka í tónlistinni, þá skiluðu umkvartanir mínar sér ekki á veitingahúsið sem ég kvartaði yfir. Í það minnsta kannaðist veitingastjóri staðarins ekki við það þegar ég labbaði við hjá honum daginn eftir.

Áður en ég lagði upp í þessa hversdagslegu gönguferð um hverfið mitt um síðustu helgi hvarflaði að mér að hringja í borgarstjórann og bjóða honum í tebolla heim í eldhús til mín og fá hann svo á rúntinn með mér. En ég gerði það ekki af tillitssemi við hann – kunni ekki við að gera honum ónæði á þessum tíma sólarhringsins. En mér varð hugsað aftur til hans þegar ég kom heim um hálfsjöleytið til að leggja mig. Því þá tóku við drunurnar af bílum hreinsunardeildar borgarinnar sem stóðu yfir í nærri tvo tíma til viðbótar. Hvernig væri að láta það vera að hreinsa upp eftir næstu stórátök í borginni og leyfa borgarbúum að vakna upp við timburmennina; leyfa þeim að sjá óhroðann sem skilinn er eftir; skoða ummerkin um næturlífið sem ekki virðist mega hrófla við?

Fríða Björk Ingvarsdóttir

Greinin birtist fyrst í Mbl. 2007

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hljómskálagarðinum á fjórða áratug síðustu aldar. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is