ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Lattelepjandi lopatreflar eru líka fólkÉg er einn af þeim sem er þeirrar gæfu aðnjótandi að búa í miðborginni. Að vísu fylgja því nokkrir ókostir en hvergi nærri nógu miklir til að yfirgnæfa kostina. Einn af ókostunum er sá að stundum er eins og við íbúarnir séum ósýnilegir, svona einskonar huldufólk og er eftirfarandi saga til marks um það: Einusinni var kona að pissa í garðinum hjá mér um nótt. Ég fór út og spurði hana að heiti og hvar hún byggi því ég væri að hugsa um að heimsækja hana og pissa í garðinum hennar. Konunni brá mikið við þetta ávarp, hysjaði í snarhasti upp um sig og sagði: "Guð, ég vissi ekki að neinn byggi hérna". Mér brá nokkuð við þetta því þetta var snyrtileg kona, vel klædd og ábyggilega vel menntuð. Gat verið að fólk héldi almennt að það væru engir íbúar í miðborginni; það væri bara bissniss á daginn og þá giltu lög frumskógarins og skemmtanalíf á kvöldin og þá giltu lög frumskógarins líka. Þegar ég fór að hugsa mig um þá áttaði ég mig á því að viðbrögð konunnar voru kannski ekki óeðlileg. Ég hef búið nógu lengi í miðborginni til að muna það að þegar fyrsti félagsskapur hagsmunaaðila í miðborginni var stofnaður, Þróunarfélagið, þá voru í því verslunareigendur, bankarnir, opinberar stofnanir og Reykjavíkurborg, það hvarflaði ekki að neinum að íbúarnir gætu verið hagsmunaaðilar. Ég hef líka setið marga fundi um miðborgina og flestir hafa þeir verið um skipulagsmál, bílastæðavandann, Vatnsmýrina eða hátæknisjúkrahúsið svo eitthvað sé nefnt, eða þá næturlífið, ofbeldið og sóðaskapinn. Aldrei hafa þessir fundir fjallað um hluti sem íbúar í öðrum hverfum setja á oddinn á fundum eða í könnunum, þarfir skólabarna og öryggi þeirra á leið í skóla, útivist, íþróttaiðkun og leiksvæði. Fólk á sjálfsagt erfitt með að trúa því að við, lattelepjandi lopatreflarnir, erum upp til hópa bara venjulegt fólk sem á fjölskyldur, börn og jafnvel aldraða foreldra eða ættingja í úthverfunum eða úti á landi. En nú er komið að því. Nú ætla Íbúasamtök miðborgar, foreldrafélög leik- og grunnskóla í miðborginni og Hverfisráð miðborgar að efna til málþings um miðborgina sem íbúahverfi laugardaginn 5. nóvember kl. 11-15 í matsal Tækniskólans á Skólavörðuholti (Iðnskólabyggingunni). Á málþinginu verður hugað að innri málum hverfisins og því hvernig hægt er að bæta það sem íbúabyggð. Þingið hefst á stuttum framsöguerindum, síðan verða umræður í hópum og formaðar spurningar sem lagðar verða fyrir borgarfulltrúa sem sitja í pallborði. Helstu umfjöllunarefni í umræðuhópunum verða samgöngur, umferðaröryggi, umhverfi, útivist, skóli, frístundir og íbúalýðræði.Ég hvet alla íbúa miðborgarinnar til að mæta á málþingið og láta í ljós skoðun sína á því hvernig þeir vilji að búseta í miðborginni þróist. Benóný Ægisson - áÁður birt í Fbl. 2011 |
Gömul myndGamla myndin er af Hljómskálagarðinum á fjórða áratug síðustu aldar. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |