ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Samráð eða sýndarlýðræði

Eitt af tískuorðum dagsins er valdefling og þýðir eftir því sem ég kemst næst að hafa vald til að taka ákvarðanir og hafa aðgang að upplýsingum og úrræðum. Borgaryfirvöld í Reykjavík hafa á undanförnum misserum haft uppi tilburði til að auka vald íbúanna og samráð við þá en til að slíkar tilraunir virki þarf hugur að fylgja máli því annars verða þær í besta falli misheppnaðar en í versta falli hreint og klárt sýndarlýðræði.

Flaggskip þessarar viðleitni borgaryfirvalda til valdeflingar íbúanna er verkefnið Betri hverfi sem gengur út það að ákveðnu fjármagni er úthlutað til hverfanna og íbúarnir gera tillögur um verklegar framkvæmdir og greiða atkvæði um þær. En áður en verkefni komast til atkvæðagreiðslu fara embættismenn borgarinnar yfir þau og velja út þau þóknanlegu. Þannig tók það þrjú ár að fá að greiða atkvæði um aparólu á leiksvæði Austurbæjarskóla því hún fann enga náð fyrir augum sérfræðinganna. Einnig eru dæmi um að embættismenn hafi bætt við verkefnum og tvö ár í röð fór megnið af fjármagni miðborgarinnar í að hlaða upp steinkantinn við tjörnina sem varla getur talist sérmál íbúa miðborgarinnar heldur flokkast undir almennt viðhald. Hugur íbúa borgarinnar til Betri hverfa kemur best fram í þátttöku í atkvæðagreiðslu en hún fór í fyrsta sinn yfir 10% í ár og er furðulegt að nokkur skuli telja það góðan árangur.

Stjórnkerfis- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar undir formennsku Halldórs Auðar Svanssonar borgarfulltrúa Pírata hefur haft það verkefni frá upphafi kjörtímabilsins að móta lýðræðisstefnu fyrir Reykjavíkurborg. Nú hafa drög að lýðræðisstefnu litið dagsins ljós og nokkur atriði vekja þar athygli einkum vegna fjarveru sinnar. Hvergi er gert ráð fyrir samráði við íbúasamtök eða að þau komi nokkursstaðar að borðinu í þessu lýðræðisferli, ekki einusinni sem umsagnaraðilar. Reyndar kemur orðið íbúasamtök hvergi fyrir í drögunum að lýðræðisstefnunni sem veldur mér furðu því íbúasamtök eru grasrótarsamtök með lýðræðislega kjörnum stjórnum. 

Af ofanskráðu má ráða að íbúasamtök eru ekkert sérlega hátt skrifuð hjá núverandi borgaryfirvöldum og það er einnig tilfinning mín en ég hef setið í stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur í áratug. Það vantar ekki að okkur sé boðið að vera áheyrnarfulltrúar í ráðum og nefndum en hvergi höfum við atkvæðisrétt. Erindum og ályktunum er svarað seint eða alls ekki og sem dæmi um það er að enn er ósvarað áskorun stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar frá 16. maí 2016 til borgarstjóra um að beita sér fyrir því að aukið samráð verði haft við íbúa miðborgarinnar í skipulagsmálum og að þeir fái að hafa meiri áhrif á framtíðaruppbyggingu hverfisins.

Á síðasta ári var komið á sérstakri miðborgarstjórn en henni er ætlað að vera umræðu- og samstarfsvettvangur hagsmunaaðila í miðborginni og embættismanna Reykjavíkurborgar og var ekki vanþörf á því þar sem hagsmunaaðilar eru margir og mismunandi í miðbænum. Gerð var samþykkt verkefnastjórnar miðborgarmála en í henni var miðborgin ekki skilgreind sem íbúahverfi og var það ein af þeim athugasemdum sem stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur gerði við tillögur stýrihóps um stefnu og stjórnsýslulegt fyrirkomulag í miðborginni en í athugasemdunum sagði m.a: „Stjórn ÍMR finnst vanta skilgreiningu á miðborginni sem íbúahverfi enda búa þar á níunda þúsund íbúar sem taka verður tillit til. Lítið er í raun fjallað um íbúana sjálfa í drögunum og einnig þyrfti að skilgreina hverfið betur“. Ekki var mark tekið á þessari athugasemd og svona eftir á að hyggja ekki heldur öðrum athugasemdum sem stjórn ÍMR gerði.

En verst kom þó úthlutun sérstaks miðborgarsjóðs við okkur í stjórn ÍMR en til verkefna íbúa var úthlutað um 3% úr sjóðnum og er því morgunljóst að þessi sjóður var aldrei ætlaður til verkefna íbúanna og megnið af honum fór til kaupmanna og rekstraraðila. Stjórn Íbúasamtakanna harmaði þann hug sem kom fram í þessari úthlutun en stjórnin stóð í þeirri meiningu að tilgangur sjóðsins væri m.a. að styrkja nærsamfélagið í miðborginni sem á margan hátt stendur höllum fæti. Þessi úthlutun er sú eina sem ætluð var sjálfsprottnum verkefnum íbúanna og dugði hún hvergi nærri til að fjármagna verkefni ÍMR og forsendur styrksins voru með þeim hætti að stjórnin sá sér ekki annað fært en að afþakka hann.

Miðborg Reykjavíkur er flóknari að samsetningu en önnur hverfi borgarinnar og því er hlutverk Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur margþættara en íbúasamtaka í öðrum hverfum. Í miðborginni er fjöldi hagsmunaaðila meiri og meiri hreyfing á íbúunum en í öðrum hverfum og það leiðir af sér að hagsmunagæsla er íbúunum þeim mun mikilvægari en hverfisvitund er á margan hátt minni meðal þeirra en íbúa annarra hverfa. Þessvegna er mikil þörf á öflugum málsvara og lifandi og fjölbreyttu starfi og því hlutverki reyna Íbúasamtökin að sinna að fremsta megni. Það er gott að búa í miðbænum og við erum tilbúin til að starfa með öllum þeim sem vilja gera það enn betra.

Benóný Ægisson

Greinin birtist fyrst á visir.is 2018

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hljómskálagarðinum á fjórða áratug síðustu aldar. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is