ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Utanvegaakstur á Arnarhóli

Sú var tíð að hvorki þrifust símasjálfsalar né tré í miðborg Reykjavíkur. Það þótti sjálfsagður hluti af kvöldskemmtuninni að skera sundur símasnúrur og rífa upp trjáplöntur og fleygja þeim á gaddinn. Satt að segja hélt ég að þetta væri liðin tíð og þjóðin orðin siðmenntaðri því trjágróður hefur fengið að dafna í borginni þó enn sé verið að snúa af honum greinar. En ég sé núna að ég hef sett kíkinn fyrir blinda augað að undanförnu, auðvitað hefði mér sem íbúa í miðborginni átt að vera það ljóst að ekkert hefur breyst í þessum efnum. Glerflöskur eru mölbrotnar hvar sem er svo gangstéttir og garðar eru þakin glerbrotum og fólk gengur örna sinna eða ælir þar sem það er statt hverju sinni, ofurölvi en í merkjafatnaði.

Það sem vakti mig af þyrnirósasvefninum er það að einhverjir hafa verið að stunda torfæruakstur á Arnarhólnum að undanförnu og enginn virðist hafa gert athugasemdir við það, þrátt fyrir öflugar öryggismyndavélar allt um kring, því hjólförunum fjölgar stöðugt. Finnst öllum þetta í lagi nema mér? Verstu hjólförin eru frá því fyrr í vetur en þau voru gerð í rigningartíð og eru því mjög djúp. Þau liggja eftir endilöngum Arnarhólströðum sem er gamla þjóðleiðin til Reykjavíkur og er á fornminjaskrá. Það hefur verið breitt milli hjóla á þessum bíl, líklega verið Hummer eða einhver slíkur lúxusjeppi. Hvað segir það okkur um þessa þjóð. að hún skuli hafa ótaldar milljónir til að kaupa slíka bíla en kann ekki mannasíði? Ég skammast mín.

Benóný Ægisson

Höfundur er íbúi í miðbænum og áhugamaður um mannasiði. Greinin birtist fyrst í Mbl. 2007

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hljómskálagarðinum á fjórða áratug síðustu aldar. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is